föstudagur, júlí 20, 2007
Mikið lifandi skelfingar ósköp fannst mér þetta skemmtileg mynd! Við hjónin skildum krakkagormana eftir hjá ömmunni, skelltum okkur í bíó og leið eins og beljum úti að vori. Eða alla vega mér. Hannes fer oftar barnlaus út að dandalast. En alla vega. Mæli hiklaust með henni og lýsi svo bara formlega yfir bloggsumarfríi. Góðar stundir.
7/20/2007 02:23:00 e.h.
föstudagur, júlí 06, 2007
Baldur Rökkvi missti derhúfuna sína í gær og Eric Clapton tók hana upp og rétti honum hana. Gaman að því.
7/06/2007 06:37:00 f.h.
fimmtudagur, júlí 05, 2007
Eins og þið hafið eflaust tekið eftir hefur blogglægð einu sinni sem oftar lagst yfir síðuna og sjálfa mig en slíkt er eðlilegt ástand á góðviðristímabilum. Ég hef hvort eð er ekki þorað að tjá mig um undangengin og yfirvofandi ferðalög þar sem mér var bent á að misyndismenn notuðu slíkar upplýsingar til illra verka. Nú þegar við erum komin með þessa ókeypis Heimavörn sem alltaf er verið að auglýsa ætti mér að vera óhætt að láta ykkur vita af því að ég er á leið til hinnar friðsælu Flateyjar á Breiðafirði. Þar mun ég líklegast dvelja um hríð ásamt móður og börnum þótt eiginmaðurinn þurfi að snúa fljótlega aftur í ys og þys stórborgarinnar. Veit þó ekki hversu friðsæl dvölin verður og hvað ég endist lengi með gólandi börn í Mekku hinna gargandi kría sem eiga þar varplendi en ég sé til. Það er náttúrulega ekki beint frí að fara í frí með þessum yndilslegu drengjum mínum. Það er hörkupúl. En gaman, jú vissulega. Við hjónin vorum til dæmis farin að finna fyrir því áður en börnin komu til sögunnar að okkur þótti ekki eins gaman í dýragörðum og áður. Það má eiginlega segja að það hafi verið ein aðal ástæða þess að frumburðurinn var búinn til. Hann var hins vegar aðeins of lítill til að hafa gaman af þeim síðasta sumar og varð hálf hræddur í litla skítuga dýragarðinum sem við fundum í Búlgaríu en nú hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og mættum ískrandi af tilhlökkun með báða drengina í dýragarðinn í Kaupmannahöfn. Það var yndislega skemmtilegt að upplifa dýragarðinn í gegnum börnin og reyndar áberandi meira gaman fyrir okkur en þá. Eftir nokkra stund fór örþreyttur frumburðurinn að biðja um að fá að fara að lúlla en við píndum hann áfram þar sem við áttum baaaara eftir að sýna honum apana...og fílinn o.s.frv. Greyið sofnaði loks einhvers staðar hjá mörgæsunum og fékk að safna kröftum fyrir Tívolíið...og Bakken...og skemmtigarðinn Sommerland. Hann kom sem sagt aftur til landsins upptjúnaður og útúrspíttaður af sykri og skemmtun og við erum enn að reyna að ná honum niður. Þess vegna verður fínt að komast í smá afeitrun í Flatey.
PS: Ég veit að Barnalandssíðan hefur verið vanrækt líka, ég reyni að tækla það þegar ég kem til baka.
PPS: Ég bið þá sem fengu veður af og jafn vel boð í þemapartýið sem ég ætlaði að halda í tilefni þrítugsafmælisins afsökunar. Ég varð að aflýsa því yngsti drengurinn er ópassanlegur á nóttunni enn þá. En ekki örvænta jafn vel þótt Ziggy Stardust búningurinn sé á leiðinni í pósti. Ég stefni á að halda 31 árs afmælisveislu í staðinn. Nema ég verði orðin ólétt afur 7-9-13.
7/05/2007 01:34:00 f.h.
miðvikudagur, júlí 04, 2007
Og nú má fara að rigna inn hamingjuóskum takk...
7/04/2007 08:10:00 f.h.
|
|