online
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli

 



Ég um mig frá mér

Synir mínir

baby
baby development
Eiginmaður

Fésbók

Mæspeis

Nostalgía

Sexy pin-up girls and their robot lovers

Gamlar ritgerðir

Kennsluréttindi

Kunningjabloggarar
Sbs
Elín - LYKILORÐ
Bogi
Íris
Tinna
Syneta
Unnur
Illfygli
Barbietec
Frú Jóhanna
Skrudduhugs
Skrattakornið
Bryndís RuthDeeza's Diner
Þrítug og þreytt húsmóðir
Egill

Ókunnugir bloggarar
Dr. Gunni
Magga og hausinn
Konan sem kyndir ofninn sinn

Blogglausar síður
RetroCrush
Archie Mcphee

 


Eldra efni
október 2002 nóvember 2002 desember 2002 janúar 2003 febrúar 2003 mars 2003 apríl 2003 maí 2003 júní 2003 júlí 2003 ágúst 2003 september 2003 október 2003 nóvember 2003 desember 2003 janúar 2004 febrúar 2004 mars 2004 apríl 2004 maí 2004 júní 2004 júlí 2004 ágúst 2004 september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005 maí 2005 júní 2005 júlí 2005 ágúst 2005 september 2005 október 2005 nóvember 2005 desember 2005 janúar 2006 febrúar 2006 mars 2006 apríl 2006 maí 2006 júní 2006 júlí 2006 ágúst 2006 september 2006 október 2006 nóvember 2006 desember 2006 janúar 2007 febrúar 2007 mars 2007 apríl 2007 maí 2007 júní 2007 júlí 2007 ágúst 2007 september 2007 október 2007 nóvember 2007 desember 2007 janúar 2008 febrúar 2008 mars 2008 apríl 2008 maí 2008 júní 2008 júlí 2008 ágúst 2008 september 2008 október 2008 nóvember 2008 febrúar 2009 maí 2009


Bedda

Berglind Björk Halldórsdóttir Bedda's Facebook profile
 
þriðjudagur, september 27, 2005  
Ég var vakandi til hálf sex í morgun að gera tölfræðiheimadæmi. Ég hef náttúrulega haft heilan mánuð til þess að gera þau en þar sem þau voru svo ógeðfelld gat ég ekki hugsað mér að byrja á þeim fyrr en á síðustu stundu. Þetta vinnulag hef ég tileinkað mér og notað alla mína skólagöngu með góðum árangri. EN...nú er öldin önnur. Það er ekkert sérlega sniðugt að vaka til hálf sex þegar maður á allt í einu lítið barn sem vaknar sprækt klukkan hálf átta á og hvað þá þegar maður á að taka nemendur í einkatíma um daginn og mæta í magadans um kvöldið. Ég er með þvílíkan náladofa í heilanum. Af hverju er ég að blogga? Tja ég var bara stödd hér fyrir framan tölvuna á efri hæð og nenni ekki niður stigann aftur.



9/27/2005 11:15:00 e.h.

sunnudagur, september 25, 2005  
Barnið er í næturpössun því ég á að vera að læra tölfræði. Er strand núna því ég er með ólöglegan Office pakka og get ekki sett inn eitthvað forrit til að reikna jöfnur. Skil hvort eð er eeeeeeekkert í þessu. Skil ekkert sem er með tölum í. Er þeim mun meiri orðamanneskja. Stundum fæ ég samt stærðfræðitilfinningu þegar ég les eitthvað sem ég skil ekki. Ég fékk svoleiðis tilfinningu um daginn þegar ég las tölvupóst frá einum kennaranum (Gunnlaugi) í uppeldisvísindum (heimspeki í dulargervi) um daginn. Ég gat þó ekki annað en skríkt af kæti því þótt ég skildi ekki nema svona 15% af því sem hann var að segja hljómaði það svo djöfulli vel og gáfulega:

Framfarir felast í sjálfu sér ekki í nýungum eða breytingum á efnislegum og huglægum viðfangsefnum mannsins, slíkt er einungis tilfærsla á viðfangi mannlegrar atorku. Hvaða framför er í því fólgin að mæta á jeppa í vinnuna miðað við að fara ríðandi eða gangandi - hvað þá hlaupandi? Jú, frá sjónarmiði einstaklings er það framför, en þegar tregða fjarlægðarinnar hefur þannig verið minnkuð að mun bregðumst við þannig við að við aukum einfaldlega þær fjarlægðir sem við förum frá einum stað til annars í daglegu lifi okkar þannig að fyrirhöfnin verður lítið minni en áður. Þá fyrirhöfn sem þó kann að sparast í ferðum reynum við að nota til að nálgast önnur markmið sem við höfum sett okkur til að lina þá þjáningu sem "misgengi" huga okkar og ytri veruleika veldur okkur. Eða dettur einhverjum í hug að það sé í sjálfu sér framför í tilvist að sitja í jeppa í stað þess að ganga? Er það einhvern veginn betra líf - hér og nú - að sitja í jeppa en að ganga? Er það gott líf kannski að koma jeppa á milli staða? Það er gott að hafa í huga að trúlega var Platón ekki auli. Hann skildi að eiginleg framför í tilveru mannsins mælist endanlega í þeirri tilveru sem manneskja lifir hverja stund og hann virðist hafa sannfærst um að maðurinn geti náð tökum á þeirri tilveru sinni með því að beina kröftum einstaklinga og samfélagsins í heild að andlegri framför mannanna en um leið þeirri þjóðfélagslegu umgjörð sem gerir þá framför mögulega. Mér sýnist að Platón myndi álíta að vissulega geti manneskja sitjandi í jeppa hafa náð einhverri framför við að fara ekki lengur ferða sinna fótgangandi, en því aðeins að hugur hennar hafi samlagast og þannig "nálgast" "frummynd" veruleikans eitthvað við að setjast upp í jeppann! Og það er nú kannski til aðeins of mikils mælst af einum jeppa, eða hvað?



9/25/2005 02:44:00 f.h.

föstudagur, september 23, 2005  
Þú stendur allsnakin inni í ljósaklefanum og það er búið að kveikja á bekknum. Þú átt bara eftir að hreinsa farðann framan úr þér. Þú uppgötvar að það hefur verið gat á blautþurrkupakkanum þínum og allar þurrkurnar eru skraufþurrar. What do you do? WHAT DO YOU DO!!??

Ég gerði náttúrulega það eina í stöðunni og byrjaði að skyrpa á þær. Gekk brösulega til að byrja með en þetta heppnaðist síðan alveg ljómandi vel. Fannst þetta vel sloppið hjá mér enda hef ég lent í ótalmörgum ljósastofuævintýrum sem enduðu ekki öll eins vel (eins og t.d. þegar ég setti fötin á gólfið í sturtuherberginu, sturtuvatnið fór út um allt gólf án þess að ég tæki eftir því og ég þurfti að laumast út í rennblautum fötum)

Eftir ljósin fór ég á Land of the Dead þar sem mér bauðst frímiði. Sæmileg bara. Nokkrar frumlegar drápsleiðir. Uppvakningarnir voru svo brjóstumkennanlegir greyin að maður varð ekkert mjög hræddur. Annars hef ég ekki eins gaman af hryllingsmyndum eftir að ég eignaðist barnið *gisp*. Bæði er ég orðin lífhræddari og svo er meðganga og fæðing svo full af líkamlegu ógeði að það nær fátt að toppa það. En það var fínt að fara á sex sýningu. Það var bara einn í salnum fyrir utan okkur systkinin. Ég þarf kannski ekki alltaf að splæsa í lúxussal ef ég fer bara á sex sýningar eins og Hugleikur Dagsson. Heheh sexsýningar hehehehehe.



9/23/2005 01:39:00 f.h.

miðvikudagur, september 21, 2005  
SUMARBÚSTAÐUR


Eyddi æðislegri helgi í upp í lúxussumarbústað (en ég átta mig á því núna að ég veit ekki einu sinni hvar hann var) en þangað var haldið til þess að halda upp á fimmtugsafmæli tengdamömmu. Tengdapabbi var búinn að leigja fleiri sumarbústaði í kring fyrir vini og vandamenn og mágkonur mínar voru búnar að baka og skipuleggja veislu mikla. Þessu var öllu haldið leyndu fyrir afmælisbarninu fram á allra síðustu stundu og heppnaðist leynimakkið stórkostlega vel.

Í bústaðnum voru tvö sjónvörp með öllum stöðvum sem mér þótti algjör jólahátíð þar sem loftnetið okkar heima er ónýtt. Ég laumaðist því aðeins úr veislunni og glápti svolítið og bar þá mest til tíðinda að ég horfði á myndina Somethings Gotta Give sem ég hafði ekki séð áður. Það þótti mér afar súrrealískt. Móðir mín þykir nefninlega sláandi lík Diane Keaton og ég kunni alls ekkert við það að móðir mín væri að kyssa Keanu Reaves og Jack Nicholson en ekki pabba minn.
SÆLGÆTISGERÐIN


Ég fór aftur að sjá á Kalla og sælgætisgerðina en það hefur ekki gerst í háa herrans tíð að ég fari tvisvar á sömu mynd í bíó. Reyndar vill svo til að Johnny Depp lék líka í síðustu mynd sem þannig var ástatt um: Cry Baby. Ég ég lét ekki þar við sitja heldur fór c.a. sjö sinnum á hana. Sá hana aftur um daginn og veit ekki hvað ég var að pæla. Eða jú, ég veit það. Anyways. Kalli var ekki alveg eins dásamleg og í fyrra skiptið. Skrifast það kannski að miklu leyti á ónæði í salnum. Í fyrra skiptið fór ég í lúxus sal kl. 18 og var fátt um manninn. Mjög þægilegt. Eftir það ákvað ég að nú myndi ég frekar fara sjaldnar á bíó og í þá sali en að sitja undir skrjáfkór, símhringingum, pirrandi hlátri og almennum ólátum. Ég veit að það er ekki góð byrjun á heiti um að fara sjaldnar í bíó að fara viku seinna á sömu myndina en alla vega. Ég fór aftur í lúxus, í þetta skiptið á sunnudagssýningu kl. 3 og þvííílík breyting til hins verra. Það á víst að vera bannað í salinn innan 16 en hann var engu að síður uppfullur af smákrökkum með helgarpöbbum sínum. Við kvörtuðum og fengum þau svör að við skyldum láta vita ef þau yrðu með læti og þá yrði þeim hent út. Við höfðum nú ekki brjóst í okkur til að gera það enda erfitt að skilgreina læti og hvað þá að benda á sökudólga. Þau voru nefninlega ekkert að blaðra en þar sem boðið var upp á ótakmarkað popp og kók (sjálfsafgreiðsla við inngang salarins) voru þau staaaaanslaust rápandi þangað að fá sér. Þá gengu þau annað hvort fyrir skjáinn eða hoppuðu, já HOPPUÐU með látum niður stigaganginn við enda sætanna. Siðað fólk birgir sig upp af poppi og kóki á undan og í hléi en þetta botnlausa lið hafði greinilega meiri áhuga á veitingunum en myndinni. Það var náttúrulega sjálfskaparvíti að fara á 3 sýningu og það hljómar kannski snobbað hjá mér en mér finnst að við hefðum átt að fá frímiða í skaðabætur. Sérstaklega þar sem við vorum spurð sérstaklega (vorum 5 saman) hvort það væri einhver undir 16 í hópnum þegar við keyptum miðana. Skamm skamm.

MAGADANS


Hugurinn er á hvítri strönd með pálmatrjám og tærum sjó þessa vikuna þar sem við erum að læra Hawaii Hula dans. Dansar frá Tahiti í næsta tíma. Yndislegt alveg hreint. Ógeðslega gaman. Verð að redda mér strápilsi og kókoshnetubrjóstahaldara.

KÚKAFLUGUR


Mér var allri lokið um daginn þegar ég hélt að það væru komnar kúkaflugur inn á heimilið vegna kúkableyjanna í ruslinu. Allt í einu var farið að bera á ljósbrúnglærum flugum með svört stingandi augu. Þær fljúga ekki svo mikið og límast við mann þegar þær setjast á mann. Þ.e.a.s. fara ekki strax þegar maður hristir hendina. Stórfenglegur viðbjóður alveg hreint. Mágkona mín sagði hins vegar að þetta væru líklega ekki kúkaflugur því þessar flugur væru komnar út um alla Reykjavík. Einhver ný tegund. Kannist þið við þær??? Kannski er Reykjavík bara orðin svona shitty place.

AIRWAVES



Búin að fjárfesta í armbandi og á von á því að minn ástkæri eiginmaður fái eitt slíkt líka þar sem hann kemur nú einu sinni fram. Nú þarf bara að redda pössun. Minn ástkæri mun sem sagt spila á bassa í nýrri hljómsveit góðvinar okkar sem er vanmetið tónlistarundur hið mesta. Skiptir oftar um hljómsveitir en klippingu. Black Valentine heitir þessi. Dillibossagleðitónlist. Ljómandi skemmtilegt. Límist við heilann. Tékk it át!

Já og ps: Varúð, ekki kaupa Dr. Hauschka svitalyktareyði. Lyktar mun verr en sviti.



9/21/2005 10:44:00 e.h.

föstudagur, september 16, 2005  

Nýjar myndir komnar á síðuna hans Baldurs Rökkva.



9/16/2005 02:27:00 f.h.

miðvikudagur, september 14, 2005  

Nágrannar mínir eru komnir með ótrúlega pirrandi garðskraut. Þetta er froskur sem lítur voða sakleysislega út en er með hreyfiskynjara og kvakar hátt þegar einhver labbar fram hjá eða það kemur vindhviða. Það berast því hávær rophljóð hér inn til mín á tíu mínútna fresti. Mér er skapi næst að setja strax upp jólakransinn minn sem er einmitt líka með hreyfiskynjara og fær andlit og syngur jólalög ef maður hættir sér of nálægt honum. Eins gott að við erum að fara að flytja.

Ég nenni ekki að skrifa meira en það er allt í lagi krakkar mínir því eins og sést á undanförnum færslum þá er ég löngu búin að falla á miðvikudagsreglunni og mun hér eftir blogga þegar mér sýnist og hana nú (en nýja challengið er að reyna að nafngreina engann).



9/14/2005 09:26:00 e.h.

þriðjudagur, september 13, 2005  

Jiiiiiiiiiiiiiiiii ætli það sé ekki óhollt fyrir mann að verða svona svakalega spenntur?



9/13/2005 12:26:00 f.h.

sunnudagur, september 11, 2005  


Gavöööð minn góður, jusssús á himnum hvað þetta er endalaust skemmtileg mynd!!!!!! Var búin að bíða lengi eftir henni og varð aaaallls ekki fyrir vonbrigðum. Ég þurfti að hafa popppokann fyrir munninum því ég skríkti svo mikið af kæti. Skkrííííkk. Langar á hana aftur. Ég mæli með að fólk splæsi í sætapláss í VIP salnum ef það ætlar sér að sjá hana. Hún er of mikill konfektmoli fyrir hina hversdagslegu sali. Góða skemmtun.




9/11/2005 10:32:00 e.h.

laugardagur, september 10, 2005  
Að gefnu tilefni tek ég fram að ef það fer fyrir brjóstið á einhverjum að hann sé nafn- eða myndgreindur á þessu bloggi eða á Barnalandssíðunni þá er um að gera að láta mig vita frekar en að bölva mér í hljóði. Ég mun að sjálfssögðu taka tillit til þess og halda ykkur utan bloggheima. Ekki það að ég skilji þá afstöðu. Mér finnst sjálfri ofsalega gaman þegar minnst er á mig í annarra manna bloggi. En ég er náttúrulega með sterkan vott af athyglissýki. Það og einhvers konar tjáningar- og skráningsþörf eru einmitt ástæða þessara skrifa allra. Þau snúast aðallega um mig og mitt líf en í mínu lífi koma að sjálfsögðu hinar ýmsu persónur við sögu sem gera það litríkt og skemmtilegt. Ef þeirra nyti ekki við hefði ég ekki frá mörgu að segja. Ég tel mig bera ágætt skynbragð á það sem er viðeigandi og ekki viðeigandi að fjalla um og ættu menn ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að umgangast mig. Ef ég fer að hafa það á tilfinningunni að vinum og ættingjum sé meinilla við að á þá sé minnst þá sé ég mig tilneydda til að hætta þessu bloggi. Látið mig endilega vita ef þið viljið ekki láta minnast á ykkur í framtíðar bloggfærslum. Ef það kemur í ljós að áhugi fyrir slíku er mikill þá segjum við þetta bara gott.



9/10/2005 04:36:00 e.h.

miðvikudagur, september 07, 2005  
Miðvikudagsreglan meingallaða pirrar mig. Glætan að ég muni allt sem gerðist síðan síðasta miðvikudag. Það ætti reyndar ekki að vera svo mikið þar sem 85% tímans fer í að sinna barnalingnum. En stundum fer hann nú í pössun og þá fer mamman annað hvort á fyllerí eða í magadanstíma. Það er a.m.k. það eina sem ég man eftir nú í svipinn. Besta að tína til eitthvað ítarlegra varðandi þetta tvennt.



Fyllerí

Að djamma, fara út að skemmta sér, kíkja í bæinn eða hvað sem það kallast nú til dags er alla vega alvarlega farið að missa sjarmann. Manni líður eins og síðasta móhíkananum þar sem líkurnar á því að hitta einhvern kunnuglegan á manns eigin reki eru hverfandi. Heilir átta til tíu árgangar af yngra og fjörugra fólki fylla staðina en fólkið mitt sem er rétt sitt hvoru meginn við þrítugt virðist vera upp til hópa heima í hreiðurgerð. En kannski var þetta bara óvenju slæmt kvöld sem ég lenti á. Ég hitti a.m.k. afar fáa og þvældist á milli staða sem voru hver öðrum leiðinlegri.
XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX
Niðurlag þessarar færslu hefur verið ritskoðað
XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX



Magadans

Það er kominn tími til að reyna aftur (sjá umfjöllun um Kung Fu leikfimisæfingar í gömlu bloggi) að hrista af sér meðgönguspikið svo ég skráði mig og aðra vini og vandamenn í Suðræna sveiflu í Magadanshúsinu. Þar mun ég á einum mánuði læra maga-, salsa-, Bollywood- og Hawaii hula dansa. Er búin að fara í einn tíma og skemmti mér konunglega. Ég lærði m.a. hvernig á að gefa tvöfalt fokkjú merki á arabísku og verður það notað óspart á hryðjuverkamenn verði slíkir einhvern tímann á vegi mínum. Það er verst að ég er ekki með naflalokkinn minn lengur. Ég tók hann úr á meðgöngunni þegar hann var farinn að vera óþægilegur og setti aftur í eftir fæðingu. Þá kom í ljós að gatið var orðið teygt og togað og lokkurinn lafði í skinnflipa eins og pendúll. Það var ekkert smart við það svo ég tók hann úr eftir að Hannes lét mig pent vita að þetta væri nú ekki alveg að gera sig.





Heyrðu jú, nú man ég eitt rosalegt sem gerðist í vikunni! Ég og Sunna sátum einn sólríkan dag úti í porti á Dillon með barnavagnana að sötra öl og ég var að tala svo mikið að ég tók ekki eftir geitungaóféti sem hafði stungið sér til sunds í glasinu mínu. Óafvitandi tók ég sopa en það varð mér til happs að ég fór mér hægt og sá hann koma svamlandi á móti mér. Hann fór því ekki upp í mig en ég kúgaðist, lyfti höndum til himins og þakkaði Guði að ekki fór verr. Þetta var heljarinnar ferlíki og var hann enn þá svamlandi þegar við fórum. Vinir hans hröktu okkur á brott enda ríkir hernaðarástand á götum Reykjavíkur þar sem geitungastofninn sem átti víst að vera hruninn er kominn úr felum and they're out for blood.



Talandi um geitunga þá stenst ég ekki mátið og birti hér annað af unglingabréfunum ógurlegu sem ég fékk í hendurnar um daginn svo þau fari nú ekki til spillis. Það er birt eins og það kemur af kúnni, ég breyti ekki neinu:

(Líklegast sumarið 1991)

Komdu blessuð og sæl

Ég hef ekki farið inn í herbergið mitt í tvo daga. Þar er nefninlega risastór, rauð og flöt margfætla að bíða eftir því að ég fari að sofa svo hún geti trítlað upp í rúm til mín á þessum ógeðslegu fótum sínum og.... Ég fer alltaf að ímynda mér svona ógeðslega hluti. T.d. var ég að fá mér sjóðandi heitt kaffi og var að hugsa hvernig fluga myndi drepast ef hún flygi ofan í kaffið eða settist á heita hellu. Svo ætlaði ég að fá mér skál. Svona litla glerskál og (þetta gerðist í alvöru) ég leit ofan í hana og sá haus og vængi (flugu í pörtum). Flugan hafði greinilega verið í skálinni þegar mamma setti í uppþvottavélina. Svo fyrir nokkrum dögum var ég að baka vöfflur og var að setja deig á járnið. Ég var orðin leið á því og bað mömmu að taka við. Þá flaug fluga ofan í deigið (ég vissi ekki af því) og mamma tók ekki eftir því og tók hana (lifandi) upp með deiginu, setti hana á járnið og lokaði.... Gunni uppgötvaði hana í vöfflunni þegar hann var búinn að stinga henni upp í sig. Í dag flaug síðan fluga ofan í cheeriosið hans Gunna. Honum er farið að þykja flugur hreint ágætar á bragðið.

Það er nefninlega hræðilegur flugnafaraldur í Kópavogi núna. Nei, skordýrafaraldur. Nú eru þau að hefna sín fyrir allar þær aldir sem við höfum kramið þau, stigið á þau, steikt þau og slátrað þeim. Í rauninni gæti það alveg gerst. Eins og fuglarnir í Hitchcock myndinni. Ég sá það á CNN að í Bandaríkjunum hefur einhver ný tegund af býflugum sem eru kallaðar the Killer Bees drepið tugi manns. Það eru aðeins tveir sem hafa lifað árásir þeirra af. Einn er lamaður og hinn missti alla útlimina. Og nú eru brjálaðir geitungar komnir hingað! Það er alltaf að koma í blöðunum fólk sem hefur orðið fyrir árás.

Sjálf drep ég aldrei skordýr. Þegar ég var lítil var ég (og er) brjálæðislega hrædd við köngulær. Einu sinni var ég hjá ömmu og öll systkini mömmu og fullt af fólki var í sólbaði og ég líka. Allt í einu fann ég eitthvað á löppinni á mér. Auðvitað var þetta könguló og ég trylltist náttúrulega. Einhver sagði að ég ætti ekki að öskra því þetta væri bara barnakönguló og það ætti aldrei að drepa köngulær því að ef ég dræpi barnakönguló yrðu mamma hennar og pabbi sorgmædd og ef að ég dræpi mömmu eða pabbakönguló færi barnið að gráta. Þá fór ég að hágrenja því að pabbi hafði stigið á könguló nokkrum dögum áður og ég grét á hverju kvöldi í meira en mánuð af því að þegar ég fór að sofa hugsaði ég alltaf um litlu barnaköngulóna sem átti ekki mömmu.

En það er samt ekki þess vegna sem ég drep ekki skordýr. Hugsaðu þér bara ef að þú myndir deyja og endurholdgast. Verða fluga í næsta lífi. Svo kæmir þú fljúgandi inn til mín og það fyrsta sem ég gerði væri að ná í dagblað og kremja þig á veggnum. Eða stinga þér ofan í kaffið mitt! Kannski myndi Gunni éta þig!

Þess vegna drep ég ekki skordýr.

Ég set glas yfir flugur og loka fyrir með hendinni og set þær svo út. Í gærkvöldi ætlaði pabbi að drepa flugu en ég náði henni í glas. Svo sá ég hvað þetta var lítil fluga og ég vorkenndi henni svo að ég lét hana fá mola og setti hana svo niður í kjallara því það var svo mikil rigning úti.

Nú ert þú að hugsa "Bedda er alveg að fara yfir um" en ég skal sko segja þér það flugnaslátrarinn þinn að ef að flugurnar fara að hefna sín þá verður það sko frekar á þér en mér!

Hei! Þetta er nokkuð gott. Kannski ætti ég að skrifa bók um þetta: "Innrás skordýranna frá Mars" Ha hah ha. En í alvöru talað. Það eru geimverur á Mars. Það var í blaðinu að einhverjir kallar voru (eru) að gera tilraunir og eftir nokkur ár kemur í ljós hvað er raunverulega á Mars. Það var í þætti um dulræn efni á stöð 1. Já,já hvað með það. Ég horfði á stöð 1. Bara einu sinni. Jæja að geimfararnir sem fóru til Mars höfðu fundið nokkurs konar steingervinga. Mannsandlit (tvö eða þrjú) sem komu í ljós steinrunnin í einhverju fjalli og í tilrauninni sem þessir vísindamenn eru að gera verður þetta rannsakað betur.

Í þættinum var líka einhver kona sem sagði frá því þegar hún var að horfa á bíómynd um hádegið í sjónvarpinu og allt í einu var bíómyndin rofin og það kom frétt um flugslys og svo og svo margir höfðu dáið og hvar þetta gerðist. Síðan hélt myndin áfram. Stuttu seinna var hún að tala um flugslysið við vinkonur sínar en þær sögðu að þær hefðu verið að horfa á fréttirnar en ekki séð neitt um flugslys. Þessi sama frétt kom svo klukkan ellefu um kvöldið og í henni var sagt að slysið hefði orðið klukkan sex um kvöldið en konan sá fréttina um hádegið. ....Segðu svo að það sé ekkert þarna fyrir handan.

Heyrðu, viltu gjöra svo vel að hætta að skrifa öll bréfin þín utan á umslögin. Mamma er alltaf að spurja mig af hverjum ég sé svona ástfangin af og hvort það sé Michael J Fox. Ef þú gerir það ekki skal ég sko...skal ég..skal ég verða geitungur í næsta lífi og stinga þig!

Ég er komin með linsur! Það er sko allt annað líf. Þær eru svolítið ógeðslegar. Þær eru linar og ef maður kemur við þær er það eins og að koma við dauða marglyttu.

Ég er að deyja í hendinni. Bæði af harðsperrum og líka af því..Æ prentvilla. Ég meinti ég er með harðsperrur af því að skrifa þetta bréf og líka af því að hringja í Stjörnuna. Það eru nefninlega sprengidagar og í tvo daga ætla þeir að gefa vinninga fyrir meira en milljón (alveg satt). Þeir eru að gefa: vöruúttektir úr öllum fatabúðum á Laugaveginum, ljósakort, 200 bíómiða, 5000 kr. úttektir á vídeóleigum, út að borða, skó og margt fleira. Maður getur líka unnið svolítið ef að maður er númer 102. Skid Row er nefninlega að koma til landsins í september. Þú veist "Ricky was a young boy, he had a heartattack" hehe (ég ætla að fara) og ef að maður er númer 102 getur maður fengið að vera á æfingu með þeim (söngvarinn er rosalega sætur). Auðvitað reyndi ég og með mína rosalegu óheppni varð ég númer...Nei reyndar ekki 101 heldur 99. ÉG VINN ALDREI NEITT!!

P.E.S blaðið (pósteftirskrift)

Póstskrift: Ég get ekki sent þér Kim Larsenlausa spólu því að ég þori ekki inn til mín út af margfætlunni

Eftirskrift: Ef að Gunna og Halla eru enn þá hjá þér þá bið ég ekki að heilsa. Bara djók. Heilsist ykkur mjög illa. Nei nei, smá grín. Megið þið detta dauðar niður. Ókei, ókei ég skal hætta. Heilsist þið.

PS: Ég þori ekki að koma í heimsókn ef það eru köngulær inni á baði hjá ykkur. Er þetta kannski hús eins og í Arachnophobia? Kannski er innrásin byrjuð nú þegar.

ES: (very important) Þú spyrð Ernu ekki að einu eða neinu nema þú minnist ekki á mig.

Vertu sæl og blessuð

Bedda



9/07/2005 12:35:00 f.h.

föstudagur, september 02, 2005  


Nýjar myndir og vídeóbrot á síðunni hans Baldurs Rökkva.



9/02/2005 03:36:00 f.h.

 
This page is powered by Blogger.