online
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli

 



Ég um mig frá mér

Synir mínir

baby
baby development
Eiginmaður

Fésbók

Mæspeis

Nostalgía

Sexy pin-up girls and their robot lovers

Gamlar ritgerðir

Kennsluréttindi

Kunningjabloggarar
Sbs
Elín - LYKILORÐ
Bogi
Íris
Tinna
Syneta
Unnur
Illfygli
Barbietec
Frú Jóhanna
Skrudduhugs
Skrattakornið
Bryndís RuthDeeza's Diner
Þrítug og þreytt húsmóðir
Egill

Ókunnugir bloggarar
Dr. Gunni
Magga og hausinn
Konan sem kyndir ofninn sinn

Blogglausar síður
RetroCrush
Archie Mcphee

 


Eldra efni
október 2002 nóvember 2002 desember 2002 janúar 2003 febrúar 2003 mars 2003 apríl 2003 maí 2003 júní 2003 júlí 2003 ágúst 2003 september 2003 október 2003 nóvember 2003 desember 2003 janúar 2004 febrúar 2004 mars 2004 apríl 2004 maí 2004 júní 2004 júlí 2004 ágúst 2004 september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005 maí 2005 júní 2005 júlí 2005 ágúst 2005 september 2005 október 2005 nóvember 2005 desember 2005 janúar 2006 febrúar 2006 mars 2006 apríl 2006 maí 2006 júní 2006 júlí 2006 ágúst 2006 september 2006 október 2006 nóvember 2006 desember 2006 janúar 2007 febrúar 2007 mars 2007 apríl 2007 maí 2007 júní 2007 júlí 2007 ágúst 2007 september 2007 október 2007 nóvember 2007 desember 2007 janúar 2008 febrúar 2008 mars 2008 apríl 2008 maí 2008 júní 2008 júlí 2008 ágúst 2008 september 2008 október 2008 nóvember 2008 febrúar 2009 maí 2009


Bedda

Berglind Björk Halldórsdóttir Bedda's Facebook profile
 
fimmtudagur, september 30, 2004  
Æ ég ætla bara að hvíla tölvuna og fara að taka til í húsinu. Það er komin voðalega vond lykt í það og öll fötin mín eru skítug. Þar sem blogg skortir birti ég ykkur til gleðiauka þessa teiknimynd sem ég sá á síðunni hennar Sunnu:





9/30/2004 06:59:00 e.h.

 

Umræður hafa skapast í skyndiskrifsglugganum mínum um muninn á brennó og skotbolta. Hér koma því reglurnar:


SKOTBOLTI

Þáttakendur dreifa sér um salinn og nota bolta til að reyna að hitta hver í annan. Sá sem nær boltanum má taka þrjú skref og reynir að kasta í hina frá þeim stað sem hann stendur á. Ef hann hittir þarf sá sem fær boltann í sig að setjast niður og bíða eftir að sá sem skaut hann verði skotinn eða að boltinn rúllar til hans. Ef sá sem kastað var í grípur boltann er hinn úr leik .


BRENNÓ

Þátttakendum er skipt í tvö lið. Í hverju liði er útikóngur og á hann þrjú líf. Liðin raða sér á völlinn eins og sést á vallarmyndinni

Nú á hvort lið fyrir sig að reyna að hitta andstæðingana og þegar það tekst fer viðkomandi yfir til síns útikóngs. Ef boltinn er gripinn á sá liðsmaður sem kastaði honum að fara til síns útikóngs. Þegar aðeins einn maður er eftir á öðrum hvorum vallarhelmingi fer útikóngur þess liðs út og á þá eins og áður sagði þrjú líf. Það má aldrei teygja sig yfir á vallarhelming andstæðingsins til að ná boltanum. Athugið! Allir mega elta boltann ef hann fer út fyrir hliðarlínu, en ef hann fer aftur fyrir á liðið sem þar er boltann. Þegar enginn er eftir á vallarhelmingi annars liðsins er það búið að tapa leiknum.


DODGEBALL

Players on one team try to hit the players on the other team with the six dodgeballs that are in play; if you're hit, you're out. If you catch it, the person who threw it is out, and his or her teammates get to come back in. You play till all players on one team are eliminated.

Þetta eru greinilega náskyldir leikir, enginn af þeim þó alveg eins. Ekki var auðvelt að finna hinar einu réttu reglur fyrir dodgeball á netinu enda ótal mörg afbrigði í gangi (Body Ball, Butt-in-the-way, Corner Ball, Dragon Dodge Ball, Four Court Dodge Ball, Hostage Dodge Ball, Killer Ball, Knee Ball, Octopus Dodge Ball, Rollerball, Spider Ball, Team Dodge Ball, Team Circle Dodge Ball, Three Man Dodge Ball o.fl.) Ekki nennti ég að eyða miklum tíma í að grafast fyrir um nákvæmlega hvaða afbrigði menn kusu að leika í myndinni. Vonandi næ ég samt að sofna í kvöld.



9/30/2004 01:56:00 f.h.

miðvikudagur, september 29, 2004  

Í dag voru ekki til birkirúnstykki svo ég neyddist til þess að kaupa kringlu með kakómaltinu mínu. Svona er lífið, fullt af litlum vonbrigðum.



9/29/2004 06:31:00 e.h.

þriðjudagur, september 28, 2004  

Mmmmmmmmmmm. Ég var búin að gleyma hvað kakómalt og birkirúnstykki með osti er geðveikt gott.



9/28/2004 09:59:00 e.h.

mánudagur, september 27, 2004  


Þessi auglýsing fer alveg óendanlega mikið í taugarnar á mér. Hún er málfræðilegt stórslys og meikar eeeengann sens! Þú missir það af hlátri....punginn á þér! Hvað í andskotanum á það að þýða!!!??? Ég gæti alveg eins sagt við fólk: Góðann daginn....fótinn á þér! Af hverju sögðu þeir ekki: Þú missir HANN af hlátri...punginn á þér. Það er vissulega ljótt en þó skömminni skárra. Betra hefði þó verið að segja einfaldlega: Þú missir punginn af hlátri. Samt missir enginn punginn á sér. Þeir eru greinilega að reyna að þýða þarna bandarísku tvíræðnina varðandi bolta og eistu en þó snýst bandaríska slagorðið fyrir myndina hvorki um að missa bolta né pung. Slagorðið er: Grab life by the ball. Ekki dettur mér svo sem í hug hvernig á að þýða það en hefði þá ekki bara verið best að sleppa því eða finna upp á einhverju allt öðru. Undirtitill myndarinnar er t.d. A true underdog story. Það hefði þá mátt segja: Brennó: mynd fyrir þá sem voru valdir síðastir í leikfimi.



9/27/2004 10:42:00 e.h.

sunnudagur, september 26, 2004  
Hannesi er fyrirgefið. Hann er aftur orðinn æðislegur eiginmaður. Hann fór nefninlega í Kolaportið og keypti handa mér gjöf. Súper dúper flott svitaband með úri á. Nú verð ég að fara að byrja í badminton eða eitthvað maður.



Síðan reyndi hann að bæta fyrir föstudagsklúðrið með laugardagskvöldverðinum. Við keyptum fleiri piparsteikur vegna "óvæntu" helgargestanna og Hannes bauðst til þess að grilla. Eins og allir vita þegar menn grilla þurfa konur að sjá um meðlætið ef það á að vera til staðar yfirhöfuð. Ég var því búin að skera niður kúrbít, hella yfir olíu, salta og pipra, fylla sveppi með rjómaosti o.fl. Síðan lét ég þetta allt í hendurnar á Hannesi og fór í tölvuna og beið eftir að það yrði kallað á mig í matinn. Ég hefði mátt vita að það er ekki hægt að líta af þessum eiginmönnum í smá stund frekar en smábörnum. Hann skaðbrenndi allan matinn! Ég stóðst ekki mátið og smellti mynd af afgöngunum. Ólseigar steikurnar kláruðust reyndar en hér er það sem eftir var af fína grænmetinum mínu:



Talandi um mat og gjafir þá hafa einmitt margir gefið mér framandi matartengdar gjafir að undanförnu. Samt eru ekki jól og ég á ekki afmæli. Ég hlýt bara að vera svona æðisleg! Mamma hans Hannesar gaf mér bréf af Tzatziki dufti þegar hún kom frá Grikklandi. Það er eitthvað sem maður á að blanda í jógúrt og ólífuolíu og setja svo agúrku út í. Svaný systir gaf mér bréf af saffran kryddi, ginsengrót og fegurðarkrem sem hún keypti þegar hún skrapp til Afríku í einn dag. Og mamma mín gaf mér thailenska matreiðslubók á norsku þegar hún kom heim frá (já you guessed it) Noregi. "Visp eggehvitene stive og vend dem inn i krabbefarsen. Fordel farsen i formene og klem den lett ned. Pensle med eggeplomme og legg et korianderblad på toppen" Það væri gaman að sjá Hannes spreyta sig á þessu.



9/26/2004 11:50:00 e.h.

laugardagur, september 25, 2004  


Eiginmaðurinn minn er æðislegur. Hann er það alveg. En hann er ekki hafinn yfir gagnrýni og nú get ég ekki lengur orða bundist af hneykslan. Ég verð að fá að kvarta aðeins. Þessir þrír nöktu menn á hljónst'rængu sem héldu fyrir mér vöku til kl. fjögur á fimmtudagsnóttu ollu mér engu hugarangri, það var bara skemmtilegt. Enda gerist slíkt nú ekki oft. Daginn eftir (á föstudag) heyrði ég tvisvar í manninum mínum í síma þar sem hann sagði að það væri ekkert sérstakt planað fyrir kvöldið. Eftir vinnu fór ég því út í búð og keypti tvær litlar piparsteikur, tvær bökunarkartöflur, salat og annað sem til þurfti í lítinn rómantískan kvöldverð og leigði spólu. Síðan fór ég og fékk mér smá blund. Ég vaknaði um kvöldmatarleytið við það að hann kemur inn og kallar "Hæ elskan, XXX er með mér. Hann ætlar að gista hérna um helgina. Er maturinn tilbúinn?" AAAAAAAAAAAAAAARRRRRRRRRRRRRRRRGGGGGGGGGGGHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHHH!!!!!!!!!!!!

Þeir fengu engan mat, ég rak þá í bíó og fékk mér sjálf örbylgjumat. Svekkelsið hélt áfram þegar ég ætlaði að fara að horfa á spóluna sem ég tók því í hulstrinu var vitlaus mynd. Þar var sannsöguleg mynd frá Disney um miðaldra konur í kvenfélagi í Bretlandi sem gefa sjálfar út nektarmyndadagatal til þess að kaupa sófa á krabbameinsdeildina í spítalanum þar sem maður einnar lést. Þvílíkt stuð.



9/25/2004 02:48:00 e.h.

föstudagur, september 24, 2004  
Heimilislífið hér á Þórsgötunni getur nú verið ansi óhefðbundið á köflum. Það voru t.d. þrír hálfnaktir og fullir menn með hljómsveitaræfingu í stofunni hjá mér til kl. þrjú í nótt. Það er hálf ómögulegt að sofna þegar það óma um húsið lög með viðlögum eins og "Who's that bitch swimming in my wallet?" og "Sharks don't like empty stomachs baby" (að mér heyrðist??!!)



9/24/2004 02:27:00 e.h.

fimmtudagur, september 23, 2004  
Eitthvað er skrýtið í kýrhausnum á þessum Blogger. Ég fékk hringingu áðan og var spurð hvort ég vissi að bloggið mitt væri í fokki! Það er nú ekki í fokki á minni tölvu en Bloggerinn er hins vegar í tómu tjóni og virðist að hruni kominn. Það er best að fara að vista bloggsöguna alla inn í Word svo komandi kynslóðir geti lesið um lífið og tilveruna á dýrðardögum bloggfyrirbærisins.

PS: Það er lús á leikskólanum mínum!!! Ég kem ekki nálægt þessum börnum lengur. Þau eru öll í óreimuðum skóm úti að leika.



9/23/2004 09:45:00 e.h.

miðvikudagur, september 22, 2004  

Jibbíííí. Rafgashaus spilar á Airwaves (sennilega á Gauki á Stöng). Vorum að fá það staðfest. Fyrir þá sem ekki vita þá er Rafgashaus hljómsveitin sem Hannes er bassaleikari í. Þeir sem voru í brúðkaupinu okkar muna eflaust eftir því þegar spontant tónleikar þeirra rústuðu nánast veislunni enda söngvarinn ofurölvi. Maðurinn heitir Maggi og þegar hann er aðeins minna ölvaður jaðrar hann við það að vera snillingur. Það heyrist m.a. á þessu lagi hér sem er viðbjóðslega flott.



9/22/2004 11:41:00 e.h.

þriðjudagur, september 21, 2004  

Dreymdi góða viðskiptahugmynd. Eða skemmtilega a.m.k. Eini gallinn er að mér finnst ömurlegt að vakna á morgnana. Dreymdi nefninlega að ég ætti veitingastað sem sérhæfði sig í morgunmat(opið 7-15). Fólk kom inn og pantaði með því að merkja í viðeigandi box á matseðlinum. 100 kall f. hvert box sem það merkti við. Fimm hlutir 500 kall, 10 á 1000 kall o.s.frv. Spælt egg, hrært egg, ristað brauð, steiktir sveppir, steiktar pulsur, kartöfluteningar, beikon, bakaðar baunir, amerískar pönnsur, snúðar, vínarbrauð, brauðbollur, rúnstykki, litlir morgunkornapakkar o.s.frv. Síðan var sérstakur safabar í einu horninu (nýkreistir safar blandaðir með kampavíni ef fólk vildi) og almennilegur kaffibar í hinu. Öll dagblöð voru til staðar og Tivoli one útvörp í básunum svo fólk gat hlustað á Tvíhöfðann sinn eða hvað sem það vildi. Fjársterkir aðilar óskast til að láta drauminn rætast.



9/21/2004 08:27:00 e.h.

mánudagur, september 20, 2004  

Það var töff, hugljúft og þunglyndislegt á Blonde Redhead tónleikunum í gær. Hrifnust var ég þó af tónleikastaðnum. Það er alveg yndislegt að geta hlammað sér niður í sæti í Austurbæ laus við sársauka í fótum, sjá og heyra allt sem fram fer í ljómandi útsýni og hljóðgæðum og geta að auki hresst sig á bjór eða gosi í glerflöskum. Það er alveg ljóst að ég mun fara þangað að leggjast fyrir framan jarðýtur ef þeir ætla að dirfast að rífa pleisið. Eitt olli mér þó miklum heilabrotum. Hvernig geta þau alltaf verið svona mjó? Hannes sagði að það væri vegna þess að þau ætu bara froskalappir og drykkju vatn. Eitthvað efast ég nú um sannleiksgildi þeirrar útskýringar. Fínir tónleikar samt.



9/20/2004 10:06:00 e.h.

sunnudagur, september 19, 2004  


Þetta er alveg yyyyndisleg mynd. Bætir, hressir og kætir. Fékk mig til að fara beint á Kazaa og hlaða niður Afternoon Delight með Starlight Vocal Band og Carry on Wayward Son með Kansas.



9/19/2004 04:43:00 e.h.

laugardagur, september 18, 2004  
Það er gríðarlega pirrandi að vera edrú inni í rúmi að hlusta á fullt fólk frammi í stofu. Ekki af því að mann langar að vera með í fjörinu heldur af því að fólkið er svo afskaplega heimskulegt. A.m.k. fólkið sem var hérna í gær. Ég hafði aldrei hitt þetta fólk áður, var með augnsýkingu og kvef og langaði ekkert að mingla svo ég þóttist ég vera sofandi. Vitleysan sem vall upp úr þeim gekk endalaust fram af mér en tók þó steininn úr þegar ein konan sem var eitthvað að pirrast yfir rokktónlistinni sagði við Hannes:

"Bíddu þú átt nú konu svo þið hlýtið að eiga einhverja aðra tónlist"

!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!



9/18/2004 01:24:00 e.h.

föstudagur, september 17, 2004  

Meira af draumförum. Í nótt dreymdi mig að það væri allt morandi af lirfum í hárinu á mér. Þær nærðust á hársverðinum og fjölguðu sér ört. Ef ég hristi hausinn kröftuglega þeyttust lirfur út um allt. Mig klæjaði ógurlega og ég reyndi allt til þess að losna við þær en ekkert gekk. Pabbi var alltaf að kaupa ný og ný sjampó handa mér en ekkert virkaði þar til hann fór í Lush og keypti Camembert ostasjampó. Eftir fyrsta þvott með því hurfu lirfurnar eins og dögg fyrir sólu. Draumráðning óskast.



9/17/2004 11:19:00 e.h.

fimmtudagur, september 16, 2004  
Ég var búin að koma mér fyrir í sófanum til þess að horfa á Granna (þrátt fyrir son Harolds) þegar ég sofnaði óvænt og vaknaði á heldur sérstakan hátt tveimur tímum seinna. Mig dreymdi að ég sæti upp í kaffistofu í vinnunni og væri að lesa eitthvað ógeðslega fyndið í Fréttablaðinu. Ég var byrjuð segja samstarfsfélögum mínum brandarann þegar Sunna greip frammí fyrir mér og fór að tala um veðrið. Ég beið róleg eftir að hún væri búin svo ég gæti haldið áfram að segja brandarann en hún bara hætti ekki og blaðraði stanslaust austlæg átt, víða 8-13 m/s, en norðaustan 13-18 á Vestfjörðum síðdegis. Víða dálítil rigning eða skúrir, en skýjað og úrkomulítið norðanlands í nótt.Loks missti ég þolinmæðina og vakna við það að ég garga af öllum lífs og sálarkröftum á veðurféttirnar í sjónvarpinu GETURÐU ALDREI HALDIÐ KJAFTI SUNNA!!!!Verst var að ég mundi auðvitað ekki brandarann.



9/16/2004 11:45:00 e.h.

 

Djöfull er þessi sonur Harolds í Nágrönnum og fjölskyldan hans gjörsamlega óþolandi. Bad move hjá handritshöfundum. Ég er nánast hætt að nenna að horfa út af þessu. Puff bara.



9/16/2004 01:07:00 f.h.

miðvikudagur, september 15, 2004  

Sá Juliu Stiles þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni. Það hafði merkilega lítil áhrif á mig.



9/15/2004 01:45:00 f.h.

mánudagur, september 13, 2004  

Vó ég lenti í geðveiku hasaratriði í dag maður! Og þá er ég ekki að tala um æluna sem börnin í leikskólanum voru að spýja í allar áttir svo maður átti fótum fjör að launa. By the way, það er gubbupest að ganga people svo það er óhætt að tilkynna sig veikann og nota þá afsökun. Enginn rengir það. Anyway, þá fór ég í heita pottinn eftir vinnu til að jafna mig á öllum ósköpunum og lá þar í mestu makindum þegar geitungur fór að sveima í kringum hausinn á mér. Venjulega skýst ég af stað og hleyp nokkra metra í burtu en sá möguleiki var ekki fyrir hendi þarna svo ég þurfti að fara á kaf í pottinn. Þar hélt ég niðri í mér andanum og þorði ekki að koma aftur upp á yfirborðið en lungun gáfu sig að lokum og ég þurfti að gægjast upp úr. Þar var hann enn svo ég þurfti að endurtaka leikinn þrisvar þar til hann fór í hvarf og ég gat klöngrast upp úr pottinum í ofboði. Mér leið eins og Indiana Jones. Hresstist á augabragði. Sofnaði samt í sófanum yfir fréttunum.



9/13/2004 09:49:00 e.h.

sunnudagur, september 12, 2004  
Viti menn. Gleðilegar fréttir. Ótrúlegt en satt þá voru tónleikarnir algjört success og Baunirnar áætla ærlegt kommbakk í nánustu framtíð. Wúhú!



9/12/2004 04:54:00 e.h.

laugardagur, september 11, 2004  

Nú er ég alveg með í maaaaaganum yfir uppátækjum og skipulagsleysi mannsins míns. Hann er náttúrulega meðeigandi í smíðafyrirtæki með fleiri milljónir í yfirdrátt og tekur undarlegar og áhættusamar ákvarðanir (sem gætu stofnað eignum okkar í hættu) á hverjum degi en ég er löngu orðin vön því. Ég loka bara einhverjum stöðvum í eyrunum og heilanum þegar hann fer að tala um vinnunna og er ekkert að hugsa um þá hluti. Ég sperrti hins vegar ákaft eyrun í fyrradag þegar hann sagði mér að Baunirnar (gamla hljómsveitin hans Spírandi Baunir) væru að koma saman aftur eftir sjö ár og ætluðu að spila í afmælisveislu á Grand Rokk.....í kvöld! Þannig er mál með vexti að í vor hittum við einhvern dreng í brúðkaupsveislu sem sagði að það væri heitasta ósk besta vinar síns að Spírandi Baunir spiluðu í 25 ára afmæli hans. Hannes tók vel í það (enda vel í glasi) en svo hugsaði hann ekkert meira um það eins og gengur og gerist. Drengurinn hafði hins vegar samband fyrir tveimur mánuðum og sagðist vera búinn að bóka stað og hvort spurði loforðið stæði ekki enn. Hannes tók aftur vel í þetta, lofaði öllu fögru en hugsaði svo ekki meira um þetta eins og gengur og gerist hjá honum...fyrr en í fyrradag! Þá var byrjað að hafa samband við gamla liðsmenn og voru þeir til nema Alli trommari sem býr erlendis. Þá var farið að grafa upp símanúmer hjá allskonar trommurum og fékkst til leiksins lokkaprúður fyrrum stöðumælavörður og trommuleikari í þungarokkssveitinni Sólstöfum. Þeir ætla að halda sína FYRSTU OG EINU æfingu í kl. 18 í kvöld og eiga að byrja að spila kl. 22. Ég er svo stressuð að ég treysti mér ekki til að fara og horfa á ósköpin. Þeir eru hins vegar pollrólegir. Karlmenn!



9/11/2004 01:30:00 e.h.

föstudagur, september 10, 2004  
Var á mini reunioni í kvöld. Við erum nokkrar æskuvinkonur sem hittumst alltaf þegar ein okkar (Sigrún sem ég hef þekkt síðan við vorum fimm ára) er á landinu. Ljómandi fínt og ekkert nema gott um það að segja. Swiss Mokka er ljómandi fínn drykkur. Ég vil hins vegar kvarta yfir nýju pilsi sem ég klæddist í fyrsta sinn í kvöld. Það er svo rafmagnað eða eitthvað að þegar maður labbar þá kiprast það upp að framan og myndar undarlega keilu á versta stað svo það er eins og maður sé með standpínu. Afar ósmekklegt.



9/10/2004 01:40:00 f.h.

þriðjudagur, september 07, 2004  

Þetta vídeóbrot er mögulega það fyndnasta sem ég hef nokkurn tímann séð. Þið getið downloadað því á þessari síðu. Það eru mörg gullkorn þarna (sem verða reyndar þreytandi til lengdar) en brotið HipHop-Rotti er án efa það besta. Ég veit ekkert um þennan mann. Ef einhver er betri í þýsku en ég endilega fræðið mig. Er þetta Stjáni Stuð Austurríkis?



9/07/2004 09:54:00 e.h.

mánudagur, september 06, 2004  

Mér segist svo hugur að bloggtíðnin muni lækka hjá mér í vetur vegna samblands 100% vinnu og fjarnáms (sagt vera ígildi 70% vinnu). Auk þess er ég hætt að drekka í bili svo andlegur frjóleiki verður í lágmarki. Hannes hélt því nefninlega fram um daginn að ég gæti ekki hætt að drekka í mánuð. Ég ætla að afsanna þá kenningu hans en krefst þess að fá 20.000 kr. loðstígvél úr Kron í verðlaun. 24 dagar eftir og ég er í góðum málum. Ég jók bara sælgætis og gosneyslu mína í staðinn. Hannesi væri þó nær að leika þetta eftir mér þar sem við misstum af skírnarveislu á laugardaginn vegna þynnku hans. Drengurinn var þó engu að síður skírður og fékk nafnið Karl Jóhann. Annars er það að frétta að ég byrjaði aftur að vinna í dag eftir þessa staðbundnu lotu í skólanum og krakkarnir voru ekkert smá kátir að sjá mig. Ég var inni í herbergi með nokkrum gaurum sem voru í kubbaleik þegar annar (kvenkyns) kennari kom inn.

Þeir (við hana): "Hey þú mátt ekkert vera hérna þetta er ekki fyrir stelpur!"

Ég : "Nú, en af hverju mátti ég þá vera með?"

Þeir: : "Æ þetta er allt í lagi, þú ert eiginlega strákur"

!!!???!!!



9/06/2004 09:23:00 e.h.

föstudagur, september 03, 2004  

Þetta helvítis hópefli í skólanum er að ganga að mér dauðri. Í dag áttum við að ímynda okkur að við værum á 20 ára reunioni, ganga um stofuna með ímyndað vínglas í hendi, heilsa fólki og þykjast vera að rifja upp kynnin af því. En ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir allan kjánaskapinn þá virkaði þetta og allir urði opnari og ófeimnari. Ég fann mér meira að segja félaga í hópverkefni vetrarins. Það er stúlka sem var eitt sinn með mér í grunnskóla. Einu sinni fór ég í partý til hennar og púðluhundurinn hennar runkaði sér á fætinum á mér. Þetta verður örugglega gott samstarf.



9/03/2004 05:28:00 e.h.

fimmtudagur, september 02, 2004  

Ég roðnaði nú bara í símann áðan. Var að panta uppáhalds pizzuna mína frá Eldsmiðjunni, El Pollo Loco (kjúklingur / hnetur / sólþurrkaðir tómatar / sveppir og jalepenos) með auka rjómaosti og drengurinn stundi með djúpri sexí röddu "mmmmmmmmmm... excellent choice". Ég veit ekki hvort ég þori að fara að sækja hana, ég er svo ótilhöfð.



9/02/2004 05:40:00 e.h.

 
Fór loksins á indí bíódaga í Háskólabíói í gær. Mamma og pabbi buðu mér á Spellbound, heimildarmynd um krakka sem keppa í stafsetningarkeppni mikilli í Bandaríkjunum. Hún er frábær, alveg hörkuspennandi og yndislega fyndin líka. Ég verð að vera dugleg ef ég á að ná að sjá fleiri myndir á hátíðinni og komast í gegnum þennan myndabunka sem er búinn að safnast upp hjá okkur. Þökk sé bróður mínum tölvuþrjótnum og Þresti sem kenndi okkur að tengja fartölvuna við sjónvarpið er ég líka búin að sjá Dodgeball og Shaun of the Dead, yndislegar báðar tvær (SOTD þó betri) og svo keypti ég eitthvað af DVD myndum á tilboði í Barcelona sem og í smá flippi á Amazon um daginn. Í hrúgu fyrir framan sjónvarpið eru nú: Cannibal Holocaust, Willard, Donnie Darko, Placebo - Soulmates never die - live in Paris, Gwar- Skulheadface, Pantera - Vulgar Videos From Hell og síðast en ekki síst Hated: G.G. Allin & the Murder Junkies. Sú síðastnefnda hefur orðið til þess að ég hef varla náð að horfa á aðrar myndir. Ég er búin að horfa á hana fimm sinnum og er alltaf jafn flissandi hlessa yfir því að þessi maður skuli hafa verið til og að svo fáir viti af því. Ef ég blogga um myndina losna ég kannski við hann úr hausnum á mér. Því býð ég hér upp á heillanga romsu um:

G.G Allin



Í stuttu máli var G.G Allin pönkari, sjokkrokkari, alkóhólisti og eiturlyfjasjúklingur sem misþymdi sjálfum sér og áhorfendum sínum á tónleikum. Hann skar sig, barði sig og aðra með hljóðnemanum, skeit á sviðið og át kúkinn, eða kastaði honum í áhorfendur. Hann ætlaði að enda líf sitt með því að fremja sjálfsmorð á tónleikum og taka nokkra áhorfendur með sér. Hann dó hins vegar hefðbundnum rokkdauðdaga (af of stórum skammti af heróíni) áður en af því gat orðið. Hann var algjör viðbjóður og mannfýla sem hataði allt og alla. Í lengra máli var hann þó örlítið meira.

Þegar mamma G.G gekk með hann sá pabbi hans sýnir sem urðu til þess að drengurinn var skírður Jesus Christ Allin. Bróðir hans Merle gat ekki borið fram nafnið og kallaði hann Je Je (G.G). Mamma hans breytti nafninu í Kevin Michael Allin þegar hann byrjaði í skóla en G.G festist. Æska hans var fremur óhefðbundin eins og að líkum lætur. Fjölskyldan bjó í bjálkakofa án rafmagns og vatns. Á veturna mokaði pabbi hans snjó fyrir gluggana til að birgja sýn og engin kerti eða samtöl voru leyfð eftir sólarlag. Pabbi hans dundaði sér við það að grafa fjölskyldugrafreit í kjallaranum en hann hótaði iðulega að drepa fjölskylduna og fremja sjálfsmorð. Sem betur fór skildu foreldrar hans og mamma hans flutti í burtu með drengina.

G.G og bróðir hans fengu snemma brennandi áhuga á rokktónlist (og seinna pönki) en fáir aðrir í rauðhálsa smábænum þeirra deildu þeirri ástríðu og urðu þeir strax utanveltu í skóla. G.G dróst aftur úr í námi og gerði í því að ögra skólafélögum og kennurum t.d. með því að mæta í kvenmannsfötum í skólann. G.G giftist, skildi, átti dóttur, stakk af, stofnaði fjölmargar hljómsveitir hverri annarri hneykslanlegri og lifði á vegum úti til æviloka (36 ára).



G.G var níhilisti. Hann trúði aðeins á sjálfan sig og vildi brjóta niður öll samfélagsleg norm og siðferðileg lögmál. Hann afneitaði hefðbundnum stofnunum samfélagsins, skóla, fjölskyldulífi, kirkju og ríki og hataði alla valdhafa. Hann sagðist reyndar hata alla. Hann átti engar eigur, gisti sjaldan lengi á sama stað og lifði á hnetusmjöri og hundamat þegar hart var í ári. Hann fór sína eigin leiðir, gerði allt sem honum datt í hug og fannst hann vera fullkomlega frjáls (nema þegar hann lenti í fangelsi) og leit á lífstíl sinn sem kjarna rokksins. G.G sagði að valdhafar drægju mörk fyrir almenning og réðu því hvað væri í lagi fyrir fólk að horfa og hlusta á. Að hann væri handan við þau mörk og að einhver yrði að vera það í nafni tjáningarfrelsis. Í raun var hann fullkomlega rökrétt afkvæmi pönkhreyfingarinnar í sinni öfgafyllstu mynd.

Varðandi sjálfsmisþyrmingu hans á sviði sagðist hann leggja hana á sig til þess að styrkja sjálfan sig og til þess að skapa ótta og spennu á tónleikum. "I'm putting danger back in to rock´n roll" eins og hann sagði. "People in this lifetime are just not ready for me. They think they've already...I mean, they think Guns'N'Roses are, like, dangerous. Gimme a break. I'll give you danger".

Á 19.öld gagnrýndi rithöfundurinn Dostojevskíj hugmyndafræði níhilista og sagði með því að að hafna Guði hefðu þeir glatað þeim gildum sem leiðbeindu manninum í lífinu. Þar með væri líf þeirra merkingarlaust og þeir myndu enda með því að svipta sig lífi. Það var vissulega ætlun G.G. Hann vildi ekki verða gamall og staðnaður og ætlaði að yfirgefa lífið þegar hann hefði náð hátindi sínum, þegar sálin væri sem sterkust. Það var þó flestum augljóst að G.G var kominn fram yfir síðasta söludag þegar hann gaf upp öndina í eftirpartýi árið 1993.

Tónlist G.G reyndist allt öðruvísi en ég bjóst við þegar ég heyrði um hann fyrst. Ég bjóst við einhverju myrku og rammpólitísku en það kom mér skemmtilega á óvart að heyra að lögin eru að mestu leyti hálfgert gleðipönk í anda Ramones, mjög catchy mörg hver. Textarnir eru kjánalegir, barnalegir og auðvitað bullandi af mann(en þó aðallega kven)fyrirliningu og ofbeldi. Þeir eru í raun alveg bráðfyndnir í einfaldleika sínum hvort sem þeir áttu að vera það eða eru það óvart. Á meðal lagatitla má nefna: I Wanna Fuck Myself, Sleeping In My Piss og You Hate Me & I Hate You en uppáhöldin mín eru þó I Wanna Piss On You, Suck My Ass It Smells og When I Die. Síðastnefnda lagið er meira að segja hjartnæmt kántrílag.



Hated, heimildarmyndin sem ég get ekki hætt að horfa á er um síðasta tónleikaferðalag G.G Allins með hljómsveitinni the Murder Junkies. Hún var gerð af Todd Phillips sem var þá í námi en hefur nú leikstýrt myndum eins og Road Trip og Old School. Hún er alls ekki fyrir viðkvæma en eftir að maður hefur jafnað sig á sjokkinu sem maður fær í upphafi verður hún bara fyndnari og fyndnari. Myndbrotin frá tónleikum/gjörningum eru náttúrulega algjör viðbjóður en viðtölin eru dásamleg. Það er svo mikið af skemmtilega furðulegu fólki í kringum G.G að það er hrein unun á að horfa. Hinn skringilega skeggjaði bróðir hans Merle (trommuleikari í Murder Junkies) er pollrólegur yfir þessu öllu saman, trommuleikarinn Dino leikur alltaf allsber ekki aðeins fyrir dömurnar heldur einnig vegna þess að hann fær útbrot þegar buxurnar nuddast við hann á trommustólnum og bjórsvolgrandi aðdáandinn Unk (!!!) hellir úr brunnum visku sinnar.

Myndin er annars vegar "freak show" og hins vegar rokkheimildarmynd í hæsta gæðaflokki. Sannarlega ekki fyrir alla en ætti að vera skaðlaus þeim sem horfa á hana með réttu hugarfari, þ.e.a.s. með húmor. Þótt það hafi verið einhver heilastarfsemi á bak við heimspeki G.G rembdist hann svo mikið við að ganga fram af fólki í framkomu og textum að hann varð í raun lítið annað en broslegur. Hann má þó eiga það að hann var heill í því sem hann var að gera. Hann ætlaði að steypa sér eins djúpt og hann gat í ógeðið svo fáir ef nokkrir myndu þora að fylgja á eftir og hann stæði uppi sem "the moust outrageous and disgusting performer in rock'n roll history". Það tókst. Til hamingju G.G.



9/02/2004 12:30:00 f.h.

miðvikudagur, september 01, 2004  


Fórum að skoða hið flunkunýja afkvæmi þeirra Jónsa og Huldu áðan. Helvíti sætt barn.



9/01/2004 11:39:00 e.h.

 
This page is powered by Blogger.