|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
fimmtudagur, ágúst 28, 2003
Mikið óskaplega var nú gaman á Foo Fighters tónleikunum krakkar mínir. Mér hlýnaði um hjartaræturnar og vöknaði um augun þegar þeir leyfðu litlu guttunum frá Stokkseyri að spila og fylltist "Ísland- best í heimi" ættjarðarstolti þegar Dave Grohl fór að mæra landið. Svo dillaði ég rassinum við slagarana og teygði hálsinn í allar áttir til þess að koma sem best auga á kappann. Ég vildi ekki leggja það á Hannes að taka mig á háhest þar sem ég hef þyngst talsvert síðan á síðustu stórtónleikum en Svanhildur systir mín fékk það sæti í staðinn. Lovísa systir mín er fullviss um að Dave hafi brosað til hennar og var einnig svo heppin að troðast undir og lenda í sjúkraskýlinu þar sem hún hitti gaurinn sem stillir trommurnar fyrir hljómsveitina. Gunni bróðir skemmti sér líka vel og svindlaði sér í stúkuna þannig að þetta var hin besta fjölskylduskemmtun. Ég skil samt ekki af hverju sviðið í Laugardalshöllinni er ekki hækkað um hálfan til einn metra, þá sæju allir. Það fer allt of mikil orka í það að reyna að sjá eitthvað og forðast um leið sveittustu tónleikagestina. Ég er nefninlega því miður orðin of gömul til að hamast í þvögunni. Ég get ekki að því gert. Þetta er bara eins og þegar maður hætti að hafa gaman að barnaefninu í sjónvarpinu eða að leika sér með pleymó. Maður veit að þetta á að vera skemmtilegt en það er sama hvað maður reynir, something is missing. Sorglegt. Djöfull vildi ég að ég væri 16 ára strákur frá Stokkseyri.
8/28/2003 06:07:00 e.h.
þriðjudagur, ágúst 26, 2003
Komst ekki á ættarmótið vegna veikinda. Hvaðan kemur allur þessi hor!?
O jæja, fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég hefði t.d. ALDREI tekið þessa mynd ef ég hefði ekki verið með hita en hún reyndist vera fráábær:
"Hey, let's pop some Viagras and issue tickets with raging, mega-huge boners"
8/26/2003 05:48:00 e.h.
föstudagur, ágúst 22, 2003
GEITUNGUR STAKK MIG! GEITUNGUR stakk mig!! Geitungur STAKK mig!!! Geitungur stakk MIG!!!! GEITUNGUR STAKK MIG Í HÁLSINN!!!!! Hvurn andskotann á þetta eiginlega að þýða!!!??? Það er komin vika síðan og ég er enn þá jafn reið og hissa. Ég stóð þarna á menningarnæturdaginn í 50 manna hóp að hlusta á konu rekja sögu húsanna í hverfinu þegar ég fann stingandi sársauka hægra megin á hálsinum. Skömminni skárra hefði það verið ef hann hefði stungið mig í hvelli og stungið svo sjálfur af, en nei. Hann danglaði þarna með eiturrassabroddinn á kafi í hálsinum á mér í hátt í tvær mínútur. Fyrstu sekúndurnar reyndi ég að hugga mig við það að þessu myndi ljúka fljótt af og að hinn hugrakki unnusti minn myndi jafnvel hrekja árasardýrið á brott, en nei. Hannes sagði að ég yrði að leyfa honum að ljúka sér af annars myndi broddurinn festast í hálsinum. Svo horfði hann bara hugfanginn á og fannst þetta stórmerkilegt. Þegar geitungurinn hætti loksins var það bara til þess að undirbúa næstu stungu því hann ætlaði greinilega að ráðast á mig aftur. Þá hljóp ég grenjandi heim af reiði því þótt þetta hefði verið ógeðslega vont, miklu verra en sprautur og tattú þá var það verst af öllu að ég átti þetta engan veginn skilið. Ég sem hef aldrei gert flugu mein í bókstaflegri merkingu stend þarna í sakleysi mínu þegar það er bara ráðist á mig að tilefnislausu! Ég held ég hafi aldrei orðið svona reið. Ég lýsti strax yfir heilögu stríði gegn geitungum og fer nú ekki út nema smurð illa lyktandi skordýrafælukremi í stórum regnjakka með flugnaeiturssprey í öðrum vasanum og fitusprey í hinum. Fituspreyið gerir það að verkum að þeir geta ekki flogið og get ég þá hæglega stigið á þá eða nota hitt spreyið. Reyndar hef ég bara drepið einn geitung með þessari aðferð og mér leið ekkert ofsalega vel á meðan þrátt fyrir reiðina. Ég hef því ákveðið að nota aðeins beinu aðferðina í sjálfsvörn en einbeita mér þess í stað að geitungagildrum. Það eru sem betur fer engir geitungar í garðinum okkar þökk sé öllum kóngulónum sem eru nú orðnir bandamenn mínir. Það er hins vegar krökkt af þeim á leikskólanum og hafa tveir krakkar verið stungnir í hefndarskyni eftir að meindýraeyðir eyddi þar búi. Ég hef útbúið og komið fyrir fjórum geitungagildrum víðs vegar um leikskólagarðinn (þar sem börn ná ekki til að sjálfsögðu) og samanstanda þær af afskornum kókflöskum, blómapottum og hunangs-kóklegi. Tugir geitunga hafa nú þegar drukknað í leðjunni mér til mikillar skemmtunar. Þetta eru greinilega illa innrætt kvikindi og ef þau ætla sér ekki að virða "live and let live" boðskapinn eða þá að "öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir" þá ætla ég ekki að gera það heldur. DEATH TO ALL WASPS!
Annars var ágætlega gaman á menningarnótt þótt stungan hafi ollið miklum kláða. Við röltum um bæinn eins og venjan er og eftir flugeldasýninguna sóttum við gítar og Hannes og Maggi fóru að spila á Laugaveginum. Það stoppaði samt enginn til að hlusta nema einn ofurölvaður unglingur. Við enduðum svo nóttina á Grandrokk á tónleikum með Brain Police. Þar greip mig þvílíkur rokkandi (nema það hafi þá verið geitungaeitrið) að ég fór úr brjóstahaldaranum (án þess að fara úr bolnum) og kastaði honum upp á svið. Það var nú gaman þótt hvorki hljómsveitin né tónleikagestir hefðu tekið eftir því. Ef ég rek mig lengra aftur í tímann þá fór ég í leikskólapartý föstudagskvöldið fyrir menningarnótt. Það var mjög gaman en ég held að ég lýsi því kvöldi ekkert nánar. Almenningur hefur örugglega ekki gott af því að vita hversu miklir sóðakjaftar og drykkjuboltar leikskólastarfsmenn geta verið. í fréttum er það annað helst að Johnny Depp er viðbjóðslega sæææææææætuuuuur. Ef ég hefði verið ólétt hefði ég örugglega misst legvatnið á Pirates of the Caribbean. Svo fór ég líka á Bruce Almighty og hló í fyrsta sinn í langan tíma upphátt í bíó. Þriðja hryllingsmyndakvöldið með systkinum mínu var haldið heima hjá mömmu og pabba. Við tókum Lost Boys (Corey Haim hvar ertu nú?), Pet Sematary og Basket Case. Það var ljómandi skemmtilegt. Það er allt í rúst heima hjá okkur. Við erum nýbúin að láta pússa parketið og endurmála stofuna og erum ekki búin að setja húsgögnin á sinn stað. Við erum ekki búin að hafa sjónvarp í hálfan mánuð og það er bara allt í lagi ótrúlegt en satt. Að vísu er það svolítið leiðinlegt núna því ég er veik, með kvef, hálsbólgu og hita og fór ekki í vinnuna í dag. Ég verð að fara að leggja mig og safna kröftum fyrir morgundaginn því þá erum við að fara á Hvammstanga á ættarmót fjölskyldu Hannesar og ég má ekki vera slöpp. Fjölskyldan sú heldur nefninlega nú þegar að mér finnist þau vera leiðinleg því ég sofna alltaf í heimsóknum. Ég hef þó útskýrt áður hér á blogginu af hverju þetta stafar. Ég hef einfaldlega ekki úthald í tíu tíma heimsóknir eins og tíðkast á þeim bæ. Lái mér hver sem vill. Anyway, verð að fara að hvíla mig svo ég verði enginn gleðispillir á morgun (er alveg hætt að nota orðið party pooper eftir að ég mundi eftir þessu fína orði gleðispillir) Bæjó
8/22/2003 06:37:00 e.h.
fimmtudagur, ágúst 14, 2003
Þessi heimasíða er alveg brilljant. Þetta er heimasíða einhvers gaurs sem vinnur við það að photoshoppa ljósmyndir fyrir tímarit. Það er sama hvað ég reyni að sannfæra Hannes um að fyrirsæturnar í blöðunum séu allar photoshoppaðar til helvítis, hann harðneitar að trúa því. Þetta er hvimleitt því þá fæ ég á tilfinninguna að hann haldi að ég sé gallað eintak af kvenmanni. Ég sýndi honum því þessa síðu sem hún Sigrún sendi mér í gær og naut þess að horfa á andlitið á honum þegar vonir hans brustu. Víst var þetta áfall fyrir hann en hann sannfærðist ekki. Hann hristi þetta af sér og sagði að þetta væru sko ekkert alvöru fyrirsætur.
Talandi um fyrirsætur þá má ég til með að sýna ykkur hvað hún litla systir mín er orðin mikil beiba, jafnvel án photoshoppunnar:
8/14/2003 06:13:00 e.h.
mánudagur, ágúst 11, 2003
Sæl veriði og afsakið biðina. Enn og aftur eru það útilegur sem hindra bloggskrifelsi (ásamt smá tölvuvírus). Útilegurnar hingað til hafa verið afar heilsusamlegar en þær tvær síðustu voru fylleríisútilegur hinar mestu og maður er bara orðinn svo gamall að maður þarf smá tíma til að jafna sig. Um Verslunarmannahelgina hefði ég gjarnan viljað vera í bænum og á Innipúkanum en ég lét tilleiðast og fór á Hvammstanga með Hannesi, Grétu frænku hans, vinum hennar Layfeyju og Garðari (sem er sláandi líkur Kevin Bacon) og Sæma. Þar er hús sem langamma hans Hannesar átti og við slógum upp tjaldbúðum á túninu. Við vorum reyndar ansi lengi á leiðinni. Eins og einhverjir vita er Hvammstangi fyrir norðan, en við þurftum fyrst að keyra suður á Hellu og ná í tjaldvagninn okkar (keyptur notaður, enginn skuldahali) í viðgerð, aftur í bæinn og áfram norður. Eftir allt saman var svo mikil lakklykt í honum að við þurftum hvort eð er að sofa í húsinu. En það var bara gaman. Síðan var kjaftað, drukkið og grillað alla helgina. Partýspilið spilað grimmt og farið í sund og kyndlagöngu. Ég hef enn ekki farið í partýspilið án þess að pissa lítillega í mig af hlátri. Frábært spil. Það var nánast ekkert fólk á Hvammstanga, hvorki ferðamenn né heimamenn svo við skruppum í Kántrýbæ einn eftirmiðdaginn að kanna stemninguna sem var akkúrat engin. Fengum einn versta borgara sem sögur fara af á pappadiski með brenndum frönskum og skúnkdrukkinn miðaldra bæjarbúa sem borðgest. Þetta var þó alveg ljómandi helgi og við keyrðum þvert yfir landið á leiðinni heim (Kjöl) og fórum í heita náttúrulaug (Hveravellir). Engar myndir eru til úr þeirri útilegu en sú næsta var stafrænt skrásett af vinnufélaga Hannesar. Sú var nefninlega vinnustaðarútilega hjá Þórsafli (byggingarfyrirtæki Hannesar og Sæma) en þar vinna nú tugir manna ótrúlegt en satt.
Við tókum forskot á sæluna á fimmtudaginn þegar Ríkisendurskoðun bauð Þórsafli í kokkteilboð til að fagna verklokum en þeir smíðuðu nýja álmu í skrifstofubygginguu þeirra í Skúlatúni.
Þar tróðum við í okkur snittum og víni, tróðum svo meira í okkur á Sjanghæ og fórum á tónleika á Grandrokk. Það kom nefninlega í ljós að Kalli, einn starfsmaðurinn hefur englarödd og er í hljómsveitinni Tenderfoot sem var að spila þetta kvöld.
Þetta var svona rólegheita tónlist í anda Jeff Buckley og Nick Drake. Æðislega flott en greyið fór svolítið hjá sér við hvatningarhróp hinna blindfullu iðnaðarmanna. Harðnaglarnir drukku til 3 og mættu svo til vinnu 7:30 daginn eftir. Við lögðum af stað seinni partinn að tjaldstæðinu á Laugum sem er einhversstaðar á barkakýli Íslands. Þegar á staðinn var komið var ákveðið að Hannes þyrfti að fara í skeggsnyrtingu:
Eftir hana var slegið upp tjaldbúðum þar sem miðpunkturinn var stórt og bleikt partýtjald. Þar var stuðið mikið eins og eftirfarandi myndir bera með sér:
Sumir fóru síðan í svaðilför og festu bílinn á meðan aðrir sváfu úr sér en það reddaðist og allir komu heilir heim að lokum.
Fleira er það helst í fréttum að ég er búin að fá stöðuhækkun og er orðin deildarstjóri í leikskólanum, búslóðin okkar er úti í garði því við vorum að láta pússa parketið og getum ekki ákveðið hvernig við eigum að mála stofuna, grillaður silungur er ekki góður en Wrong Turn er æðisleg hryllingsmynd.
8/11/2003 10:35:00 e.h.
|
|
|
|
|