|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
föstudagur, maí 18, 2007

Maðurinn minn er langsvalastur! Hann er lengi búinn að ætla að gera eitthvað í karlabumbunni sem farin er að myndast og í kvöld tók hann af skarið og er úti að hlaupa í Adidas gallanum sínum. I-podinn var óhlaðinn þannig að hann tók bara með sér gamla vasadiskóið sitt og kasettu með Frankie Goes to Hollywood á annarri hliðinni og Prince á hinni. Áfram Hannes! Hlauptu eins og vindurinn!! Þetta er líka geggjað flott vasadiskó og kostaði 16.þúsund kall á sínum tíma.
5/18/2007 09:32:00 e.h.
miðvikudagur, maí 16, 2007

Hmmmm er ekki enn búin með ritgerðina. Kannski af því að ég er að drekka bjór og horfa á Magical Trevor. The tricks that he does are ever so clever.
5/16/2007 12:11:00 f.h.
mánudagur, maí 14, 2007

Ég á að skila 10 blaðsíðna fræðilegri ritgerð sem ég er varla byrjuð á á morgun en taldi sjálfri mér trú um að ég mætti alls ekki missa af heimildarmyndinni á RÚV um nefapa í fenjaskógum Borneó. Og nú er ég farin að blogga. Stop it!!!!!
5/14/2007 11:27:00 e.h.
miðvikudagur, maí 09, 2007

Í morgun varð mér hugsað til eftirfarandi atburðar sem ég bloggaði um í nóvember 2005:
Ég er frábær móðir... Í morgun var ég að reyna að fá frið til þess að lesa blaðið með því að stinga brotnum cheerios hringjum blindandi upp í barnið með vissu millibili. Þetta gekk ljómandi vel í dágóða stund en allt í einu gekk eitthvað erfiðlega að koma einu brotinu fyrir svo ég leit upp frá blaðinu...og sá að ég hafði troðið því upp í nösina á barninu!!! Ég þurfti að nota tannstöngul til að ná því út.
Í dag sat þetta sama barn við morgunverðarborðið og skóflaði sjálfur upp í sig morgunkorni enda orðinn töluvert eldri. Hann hélt kannski að hann væri orðinn óhultur fyrir mér en annað kom á daginn. Ég keypti nefninlega svona barnavítamínbréf með álþynnuhlið í stykkjatali í apótekinu þannig að það er mismunandi ávaxtabragð á hverju spjaldi. Það eru 15 töflur á spjaldi og ekki að það skipti hann neinu máli hef ég verið að gefa honum brögðin svolítið til skiptis svo að hann þurfi t.d. ekki að fá 15 jarðaberja í röð áður en hann fær melónu. Bréfin eru því á víð og dreif um skápinn sem þau eru geymd í. Í morgun greip ég eitt slíkt og gaf honum vítamíntöflu ásamt nokkrum lýsispillum án þess að kíkja sérstaklega á hvaða bragð væri af henni. Eftir smástund tók Hannes eftir því að barnið hagaði sér eitthvað undarlega. Hann kvartaði ekki en gretti sig og hryllti og fiktaði í munninum á sér. Ég hélt að hann væri bara með einhverja stæla en þegar Hannes spurði hvað í ósköpunum ég hefði verið að gefa barninu fór ég og kíkti betur á bréfið. Þetta var Parkódín forte!!! Mamma gaf mér eitt bréf um daginn þar sem þetta er eina verkjalyfið sem virkar þegar ég fæ hausverk og ekki lengur hægt að fá það án lyfseðils. Hann hafði alla vega skyrpt hálfri töflunni út úr sér svo ég vona að þetta leiði ekki til annars en að hann sofi vel í hádegislúrnum. Ég þorði alla vega ekki að segja frá þessu á leikskólanum. Þau myndu örugglega ekki láta hann í hendurnar á mér aftur.
5/09/2007 01:53:00 e.h.
föstudagur, maí 04, 2007
Að svæfa barn er eins og að aftengja sprengju. Þegar þú ert nokkuð viss um að það sé sofnað, læðistu á tánum út úr herberginu og lokar ofur varlega. Léttirinn hellist yfir þig og þú sérð fram á langt kvöld þar sem þú munt loksins hafa ró og næði til þess að sinna þínum hugðarefnum. Þú ert þó ekki fyrr búin að hella upp á kaffi en skaðræðisgól berst úr barnaherberginu. Þú klipptir á vitlausan vír.
 Svona er þetta búið að ganga kvöld eftir kvöld undanfarnar vikur svo ég hef þurft að vaka allar nætur til þess að standa við skuldbindingar í vinnu og skóla. Vökurnar hafa líklegast brenglað raunveruleikaskynið en öðruvísi get ég ekki skýrt þær grillur sem ég fékk allt í einu í höfuðið síðustu helgi. Hannes var að drekka bjór hjá vini sínum og ég sat heima við tölvuna og þóttist vinna. Sú örlög að þurfa að vinna á föstudagskvöldi reyndust mér um megn svo ég freistaðist ítrekað til að kíkja á ýmsan skemmtilegan óþarfa á netinu. Á endanum datt ég inn á umræðu á Barnalandi um skyggn börn. Þar las ég mýmargar reynslusögur um 2-3ja ára börn sem bentu á og töluðu um fólk sem foreldrar þeirra sáu ekki. Einn vildi ekki fara inn til sín því það var hauslaus maður undir rúminu og önnur vaknaði alltaf upp við það að gömul kona var að klípa hana í kinnarnar. Stöðugur straumur af köldu vatni rann milli skinns og hörunds á mér við lesturinn og að lokum var ég orðin fullviss um að börnin mín væru skyggn og þau væru að vakna upp á nóttunni því framliðið fólk væri að bögga þau. Baldur Rökkvi benti einmitt fram á gang á alls ekki neitt um daginn og spurði hvað "detta" væri. Málþroskinn nær sem betur fer ekki lengra hjá honum því ég hefði fengið hjartastopp ef hann hefði spurt hvaða kall þetta væri.
Ég var búin að hræða sjálfa mig upp úr öllu valdi og ákvað að hringja í Hannes og skipa honum að koma heim og passa mig en hvorki hann né vinurinn svöruðu símanum. Í sömu andrá fór barnapíutækið í gang með skruðningum og látum og ég öskraði upp yfir mig og fékk náladofa í kroppinn af hræðslu. Þá prófaði ég að hringja í systur mína sem var sem betur fer vakandi (klukkan var 3 um nótt nota bene) og hún talaði við mig á meðan ég fór upp að gefa þeim yngri að drekka. Engin vegsumerki um drauga var að finna en mér leist ekkert á blikuna og bað systur mína að koma til mín. Hún hafði reyndar enga trú á kenningu minni en við systkinin erum búin að horfa á nógu margar hryllingsmyndir saman til að vita að okkur ber að taka fólk trúanlegt á svona ögurstundum. Það skipti því engum togum að hún stökk upp í leigubíl og var komin 10 mínútum síðar (Takk Svaný!!!). Hannes kom svo sjálfur heim stuttu seinna svo þau gátu hlegið að mér saman.
Tveimur dögum seinna kom það sem að öllum líkindum er raunveruleg ástæða þess að Baldur hefur verið að vakna upp á nóttunni í ljós. Hann er með eyrnabólgu. Eins gott að ég var ekki búin að hringja í Sálarrannsóknafélagið.
5/04/2007 03:07:00 f.h.
|
|
|
|
|