|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
föstudagur, apríl 13, 2007
 Frestunarárátta mín náði nýjum hæðum áðan þegar ég fór út með stiga og tók niður jólaskrautið kl. 3 um nótt í stað þess að byrja á ritgerð sem ég á að vera löngu byrjuð á. Ég er sem sagt ekki alveg að standa mig á öllum sviðum lífsins en ég er samt að verða algjör súpermamma. Ég er svo skotin í strákunum mínum og geri ekkert annað en að knúsa þá sundur og saman, leika við þá og rassakastast með þá út um allan bæ í Húsdýragarð og heimsóknir í notuðu tvíburakerrunni sem ég keypti á Barnalandi. Ég vanræki alveg aumingja Hannes en hann tekur hvort eð er ekki eftir því því hann er alltaf í vinnunni. Þar sem Hannes vinnur yfirleitt langt frameftir er algjört hernaðarástand hér heima á kvöldin og hef ég aldrei kynnst öðru eins álagi og stressi. Eldhúsið er í rúst eftir að ég hef reynt að elda með Halldór á handleggnum og Baldur uppi á eldhúsborði að bæta öllu sem hann nær í ofan í pottinn. Eftir mat fer ég að hátta Baldur og svæfa en akkúrat um þetta leyti tekur Halldór grenjukast kvöldsins. Ef Halldór lognast út af get ég bætt Baldri það upp með því að lesa extra lengi fyrir hann og knúsa þar til við sofnum bæði. Svo vakna ég stuttu síðar við vælið í Halldóri og gef honum að drekka og ekki líður á löngu þar til Baldur vaknar upp aftur og sofnar ekki nema ég sitji hjá honum. Svo eru þeir að vakna upp til skiptis fram undir morgun og ég reyni í millitíðinni að ganga frá draslinu, skrifa ritgerðir og vinna markaðsrannsóknirnar mínar.....eða eins og alengara er: hanga á e-bay eða Barnalandi eða taka niður jólaskrautið. Þetta myndi eflaust æra óstöðugan en ég er búin að finna leið til að halda geðheilsunni. Þegar þeir sofa loksins báðir í einu fer ég niður og fæ mér einn lítinn bjór og hlusta í smástund á dauðarokk á hæsta styrk í heyrnartækjunum í tölvunni (er með barnapíutæki með ljósum svo ég sé ef einhver er að grenja). Afar stresslosandi. Þess má geta að ég hlustaði sko ekkert á dauðarokk áður en ég átti þetta barn no.2. Ég var meira að segja orðin svo meir að ég var alltaf með stillt á Létt fm í útvarpinu. But extreme times call for extreme measures. Því miður kemst ég ekki á Cannibal Corpse tónleikana í sumar þar sem ég verð í fjölskylduveiðiferð.
4/13/2007 03:45:00 f.h.
|
|
|
|
|