|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
laugardagur, mars 24, 2007
 Svo mæli ég með þessum þætti um Serge Gainsbourg. Skemmtilegur. Nú langar mig að fara að dusta rykið af frönskukennslubókunum þótt mér hafi mistekist hrapallega að gera mig skiljanlega í minni einu Frakklandsheimsókn. Ég hef reyndar ekki einu sinni tíma til þess að raka á mér lappirnar þessa dagana þannig að maður ætti kannski að bíða með frönskunámið.
3/24/2007 12:18:00 e.h.
miðvikudagur, mars 21, 2007

Jæja... Miss me? Ætli það nokkuð. Eru ekki allir farnir yfir á þetta Moggablogg og hættir að lesa blogspot síður? Kannski ég fari að hugsa mér til hreyfings. En verður maður ekki að vera voðalega pólitískur og fréttameðvitaður til að tjá sig eitthvað þar? Þótt ég sé með háskólapróf í fjölmiðlun og hafi meira að segja náð að blöffa mér leið inn í dægurmálaþátt hins hæstvirta Ríkisútvarps um tíma hef ég hvorki vit né þörf á að tjá mig um þau þjóðfélagsmál sem brenna á almenningi dags daglega. Ekki einu sinni Smáralindarklámið snerti taugar hjá mér. Ég er svo gjörn á að skilja báðar hliðar mála að ég nenni yfirleitt ekki að taka afstöðu í nokkrum sköpuðum hlut. Þess má til gamans geta að helsti kennari minn í fyrrnefndu háskólanámi var sjálf upphafskona klámhneykslisins Dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins sem landinn er að leggja í einelti um þessar mundir. Hún er hin vænsta kona en ætli það sé ekki vissara að hætta að nefna hana sem meðmælanda í ferilskránni minni.
Það eru sem sagt aðeins mín eigin persónulegu mál sem eru mér ofarlega í huga um þessar mundir og þar sem svo langt er liðið frá síðasta bloggi er ekki um annað að ræða en deila einu litlu með ykkur: Ég tygg svampa. Mér hefur alltaf þótt gott að tyggja svampa og mamma þurfti meira að segja að fela fyrir mér axlapúðana sína á níunda áratugnum. Síðan lá þetta í dvala í einhvern tíma en hefur blossað upp af fullum krafti með tilkomu nýja barnsins. Blautþurrkurnar voru nefninlegar svo kaldar að ég vorkenndi greyinu og fór að kaupa svona þunna rassasvampa sem kveiktu svamptugguþörfina aftur. Nú nota ég hvert tækifæri sem gefst til að standa yfir vaskinum og tyggja vatnsósa svampa sem ég bleyti aftur og aftur þar til þeir eru úttuggðir. Hannes varð vægast sagt dauðskelkaður þegar hann sá þetta í fyrsta sinn enda löngu farinn að halda að ekkert gæti komið honum á óvart varðandi eiginkonu hans lengur. Mér finnst þetta svo gaman að ég fór á netið að leita að öðrum svamptyggjendum sannfærð um að þetta væri útbreidd iðja en þar var ekkert að finna. Ætli ég sé ekki búin að finna upp nýtt svona fetish!? Tengdamamma er búin að biðja mig um að tyggja ekki svampa fyrir framan börnin því hún heldur að það séu einhver eiturefni í þeim. Mér finnst því vissara að segja vinum og ættingjum frá þessu svo þeir geti bent læknum (eins og þeim í þættinum House) á mögulegar orsakir ef ég skyldi falla í dá eða eitthvað. Ég ætla samt að minnka þetta og er búin að kaupa blautþurrkuhitara á e-bay svo ég þurfi ekki að kaupa svampana. Hann er kominn en ég mundi ekki eftir því að það er öðruvísi spenna og innstungur í USA svo ég get ekki notað hann fyrr en ég er búin að redda mér straumbreyti og millistykki. Það er svo spurning hvort maður á að vera að hafa eitthvað útlent raftæki í sambandi inni hjá barninu upp á eldhættu og svoleiðis. Já, maður hefur svo sannarlega nóg fyrir stafni í fæðingarorlofinu.
3/21/2007 03:12:00 f.h.
|
|
|
|
|