|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
miðvikudagur, nóvember 22, 2006
Þetta gengur ekki lengur. Það er ekki eins og ekkert sé að gerast hjá mér. Það er þvert á móti of mikið að gerast og ég orðin svo feit og hægfara að ég get ekki sinnt því öllu. Ég get ómögulega munað eins langt aftur í tímann og síðasta blogg var en byrjum á liðinni helgi:

Á föstudaginn hringdi Hannes í mig í vinnuna og sagði að fyrirtæki sem hann er í viðskiptum við hefði boðið okkur til hátíðarkvöldverðar. Ég var frekar þreytt og nennti varla og sagði honum að fara með vinnufélaga í staðinn. Hann hringdi svo aftur í mig rétt fyrir kvöldmat því enginn vildi koma með honum svo við skelltum okkur. Við náðum að vera sæmilega en ekkert sérstaklega vel til höfð og fengum pössun í það sem við héldum að yrðu varla meira en tveir tímar þar sem við ætluðum bara að næla okkur í ókeypis mat og stinga af. Hannes vissi ekkert um þetta annað en að þetta væri á Hótel Sögu. Þegar við mættum þangað og gengum beint í flasið Vigdísi Finnbogadóttur, breska sendiherranum og hóp af prúðbúnu fólki með kokkteilglösin á lofti runnu á okkur tvær grímur. Smám saman áttuðum við okkur á því að við vorum stödd á fjáröflunarkvöldverði en það er fyrirbæri sem ég hef aldrei komist í kynni við nema í Dumb & Dumber þegar Lloyd drap snæugluna með kampavínstappa. Eftir að okkur var vísað til borðs ásamt hópi góðra viðskiptavina byggingavöruverslunar einnar varð okkur ljóst að við myndum ekki geta stungið af í bráð. Ég varð áþreifanlega vör við fágunarleysi mitt þar sem ég var umkringd eiginkonum viðskiptajöfra með óaðfinnanlegar neglur á meðan ég reyndi að fela flagnað naglalakkið sem var í engum stíl við kjólinn auk þess sem ég hafði verið að klippa á mér neglurnar stuttu áður með gömlu gæludýranaglaklippunum sem vð notuðum á Ellu eðlu. Eftir ljúffengan mat sem samanstóð meðal annars af innbökuðum krabba með kúfiskasósu (hvað svo sem í ósköpunum kúfiskur er) var komið að listmunauppboði. Einhver hafði greinilega dregið þá vitlausu ályktun að fyrirtæki Hannesar hefði fjármagn til að bjóða í fíneríið og við skömmuðumst okkar því svolítið fyrir að hafa þegið matinn. Hannes sýndi smá lit eftir þó nokkur hvítvínsglös og bauð 160 þús kall í grænt plastjólatré úr dúkkuhöndum og fótum en sem betur fór seldist það á 400.000. Dýrasta verkið fór á 2,6 millur en almennt voru fjáröflunarhaldarar hundóánægðir með afraksturinn. Einn fór upp á svið og hreinlega skammaði fólkið í salnum fyrir nískuna. Afar súrrealískt kvöld og vil ég nota tækifærið og þakka Maríu Hannesarsystur sérstaklega fyrir að hafa staðið vaktina og ekki látið sér bregða þegar tveggja tíma pössun breyttist í níu tíma.

Kvöldið þar á eftir tókum við rútu upp í Hvalfjörð á jólalaðborð. Þar sem það var kolniðamyrkur úti sá maður hvort eð er ekkert hvar maður var og ég velti því fyrir mér tilgangi sveitaferðarinnar en ljómandi hlaðborð engu að síður. Þar voru nokkur fyrirtæki saman og fyrirtækið hans Hannesar sat við þrjú langborð. Íslendingar röðuðu sér sjálfkrafa á eitt og Pólverjar á hin tvö. Eftir matinn fór fjölskyldufólkið að tygja sig heim með einkabílum eða fyrri rútunni en ég sat uppi með Hannes, nokkrar partýhræður og Pólverjana. Hannes var orðinn vel mettur af bjór, vodka, viskíi, koníaki og rauðvíni og kjaftaði á honum hver tuska. Hann tók ekkert eftir konunni sinni sem átti í fullu fangi með að verjast ágangi Pólverjanna sem allir vildu fá að dansa við hana. Ég gafst upp að lokum og fór að dansa við tvo þá ágengustu til skiptis og voru þeir prúðmannlegir dansarar og fráir á fæti en eftir c.a 12 dansa vatt ég kvæði mínu í kross, benti á bumbuna og sagðist vera orðin allt of þreytt. Þeir bentu bara á bumburnar sínar á móti, annar sagði "one more one more" og hinn sagði bara "you, me playstation my house" og héldu áfram beiðnunum auk þess sem það fór að fjúka verulega í hina sem ég neitaði um dans. Ég reyndi að ríghalda í Hannes sem var annars hugar og um leið og hann leit undan fékk ég hin undarlegustu ástarmerkjahandapöt og blikkanir frá aðdáendum mínum. Ég var alveg búin að fá meira en nóg en enn voru tveir tímar í að næsta rúta kæmi. Ég reyndi að halda ró minni og hugsaði með sjálfri mér að þetta hlyti að vera einhver menningarlegur misskilningur, þeir gætu varla verið að reyna við mig kasólétta konu forstjórans en þegar íslenskur karl kom og hreinlega danglaði í mig fyrir að vera ekki nógu tilkippileg var mér nóg boðið og brunaði í bæinn í stórhríðinni sem þá var að hefjast með Hannes þá örfáu sem ekki höfðu gerst of ástleitnir við mig í bíl sem átti að skilja eftir. Ég hef ekki lent í öðru eins í nær áratug. Nú veit ég ekki hvort það var fullt tungl eða hvað var í gangi en ég mun alla vega hugsa mig tvisvar um áður en ég læt hana Loví systur mála mig aftur. Hún var að hefja förðunarnám í haust og hefur strax hlotið þriðju verðlaun á Íslandsmeistaramóti förðunarnema. Þessi mynd er hvorki þaðan né af hlaðborðskvöldinu en var tekinn einn morguninn þegar ég var módel hjá henni í svart/hvítri förðun:

Hana sárvantar módel sem geta mætt einhvern virka daginn milli kl. 9 og 11. Í laun er svo frí förðun síðar þegar viðkomandi vill láta reyna almennilega við sig og svona. Hafið samband við hana hér: lovylara@visir.is.
Um daginn slysaðist ég fyrir tilviljun inn á fyrirlestur sem Magnús Skarphéðinsson hélt í Kennó um líf eftir dauðann. Það vill svo til að Magnús Skarphéðinsson er einn uppáhaldsÍslendingurinn minn og sá eini sem ég myndi kjósa án þess að blikka færi hann út í stjórnmál. Fyrir utan það hvað hann er mikill dúlla þá er hann nógu rólegur, yfirvegaður og rökfastur til þess að varpa trúverðugleika á hina furðulegustu hluti og skoðanir. Síðan er algjörlega ómögulegt að efast um hjartagæsku manns sem er formaður Músavinafélagsins. Ég drakk í mig fyrirlesturinn og hélt eftir hann að ég væri komin með "the Ultimate Answer to Life, the Universe, and Everything". Sunna vinkona mín kom reyndar í heimsókn daginn eftir og drullaði yfir allar kenningarnar þar sem hún er í heimspeki þessa stundina en ég skráði mig engu að síður í Sálarrannsóknarfélagið og ræddi frekar við kappann. Síðan fékk ég tíma hjá Ólafi Hraundal spámiðli sem við Hannes fórum einu sinni til fyrir löngu okkur til gagns og gamans. Þá vildi hann meina að Hannes myndi fara að slá í gegn í tónlistinni eftir fimmtugt og ég myndi uppgötva dulda miðilshæfileika. Í þetta skiptið bætti svo sem litlu við. Það var bjart yfir öllu en hann vildi sjá mig í listrænna starfi síðar. Sagði að ég ætti frábæran mann og yndislegan dreng sem ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af. Bróðir hans væntanlegi yrði þó mjög ólíkur honum, miklu örari og ég þyrfti að hafa meira fyrir honum. Úff. Hvað var ég að pæla. Ég er búin að þamba kók og kaffi alla meðgönguna svo barnið verður örugglega snarofvirkt. Hér er svo mynd af Damien litla en við fórum í þrívíddarsónar um daginn. Naflastrengurinn og alls konar drasl var samt fyrir svo lítið sást, en þetta eru bestu myndirnar. Hann virðist nú vera ósköp sakleysislegur greyið:

 Læt þetta duga í bili. Þarf að fara að starta jólaundirbúningnum ef barnið skyldi ákveða að kíkja fyrr í heiminn.
11/22/2006 12:47:00 f.h.
þriðjudagur, nóvember 14, 2006
Neiiii ég er ekki búin að blogga. En Hannes er það!
11/14/2006 02:14:00 f.h.
fimmtudagur, nóvember 02, 2006
Er hægt og bítandi að reyna að uppfæra hina vanræktu barnalandssíðu. Myndir ágústmánaðar eru nú komnar inn.
11/02/2006 01:25:00 f.h.
|
|
|
|
|