|
Jafnvel hinn minnsti froskur er mikill í sínum eigin forapolli
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
mánudagur, febrúar 20, 2006

Heimilislífið er frekar erfitt um þessar mundir þar sem einbirnið er illa kvefað í fyrsta sinn á ævinni. Lítil börn mega ekki fá hóstasaft og kunna ekki að snýta sér þannig að pirringurinn er gífurlegur. Ég kenni Sundhöllinni um. Við vorum orðin góðu vön eftir að hafa haft það notalegt í hlýju ungbarnasundinu undanfarna mánuði og var því illa brugðið í drullukaldri og fangabúðalegri höllinni. Ég held að við höldum okkur bara í baðinu fram á sumar.
Húsmóðirin fékk engin blóm á konudaginn en það var í góðu lagi þar sem eiginmaðurinn kom færandi hendi frá Hollandi fyrr í vikunni með dýrindis ilmvatn og túlípana. Túlípanabúntið var svo stórt að það komst ekki fyrir í einum vasa og var þeim því komið fyrir í mörgum vösum á hinum ýmsu stöðum. Það lifnaði heldur betur yfir híbýlunum og manni leið dásamlega dömulega, sérstaklega á salerninu. Ég ákvað að framvegis skyldi ég alltaf vera með fersk blóm á heimilinu mér og öðrum til yndisauka. Ég var fljót að skipta um skoðun og hverfa aftur til hins kalda raunveruleika þegar ég gekk fram hjá næstu blómabúð og sá þar rindilslegt túlípanabúnt 1/10 af stærð hins hollenska á íslensku verði. C'est la vie. Svo er svona blómapjatt hvort eð er bara skammgóður vermir. Eftir fyrsta daginn verður frekar depressing að horfa á þau veslast upp og deyja. Svona eins og að hafa keypt myrta fegurðardrottningu, stillt henni upp í betri stofunni og horft á hana rotna....eða eitthvað....
En að léttara hjali. Mér gengur ljómandi vel í nýju vinnunni minni og finnst hún skemmtileg. Ég mæti þarna á kvöldin þegar mér sýnist, horfi á einn dag af 2 mánaða gamalli sjónvarpsdagskrá allra stöðva á tíföldum hraða og geri skýrslu um auglýsingarnar. Skýrslugerðin er svo nákvæm að hún fullnægir sjúklegri skipulags og fullkomnunarþörf minni án þess að reyna um of á heilann. Eini fylgikvilli hennar er að auglýsingaskilaboð eru farin að grafa sig inn í undirmeðvitundina og hafa áhrif á kaupvenjur mínar. Ég kom t.d. við í Krambúðinni á heimleiðinni eitt kvöldið og keypti ósjálfrátt Maaruud snakk, Coke Light og happaþrennu, vörutegundir sem ég legg ekki í vana minn að kaupa en voru auglýstar trekk í trekk þetta vinnukvöld. Galli? Nei það myndi ég ekki segja þótt ekki hefði ég unnið á happaþrennunni. Ég leigði nefninlega myndina 40 year old virgin sem ég hefði eflaust aldrei gert hefði henni ekki brugðið svona oft fyrir í auglýsingum kvöldsins. Ógurlega var hún skemmtileg! Hreinn unaður á að horfa og að að hlæja. Alls ekki eins og ég hélt. Eindregin meðmæli. Þessi auglýsing hér fær líka eindregin meðmæli. Yndisleg.
2/20/2006 09:59:00 e.h.
þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ég vil þakka öllum þeim virðulegu dömum sem sóttu kokkteilboð mitt um helgina fyrir prúðmannlega framkomu og almenn skemmtilegheit. Þetta var dásamlegt kvöld þótt kokkteilarnir sjálfir hefðu verið hver öðrum verri. Thank you ladies.
ps: Þetta var örugglega eina partýið í heiminum sem byrjaði á R. Kelly og endaði með Panteru
2/14/2006 12:57:00 f.h.
föstudagur, febrúar 10, 2006

Nú get ég úðað í mig nammi með góðri samvisku. Ég fór nefninlega til tannlæknisins míns í dag eftir þriggja ára vanrækslu. Hún sjænaði allt til og gerði við eina litla skemmd. Þetta gerði litlar 17 þúsund krónur enda er hún algjör lúxus tannlæknir. Það er allt fullt af tuskudýrum og ljósaseríum í stofunni og maður fær bleikan slefsmekk og bleikt plastglas til að skola í stíl (herrar fá grátt og börn myndskreytt). Síðan klessir hún brjóstunum einhvern veginn upp við andlitið á manni á meðan hún er að vinna sem er afskaplega róandi.
A real lady's dentist. For I am a lady you know.
Talandi um dömur þá eru allar dömur sem hafa áhuga boðnar í kokkteilboð á laugardagskvöld. Ég ætlaði að hafa þetta sparilegt en bíllinn bilaði svo ég kemst hvorki í ríkið né í stórinnkaup. Síðan nenni ég varla að taka til. Þannig að boðið verður líklega í grófari kantinum. Viskí og appelsín og nokkrir bakaðir Camenbert ostar. Eitthvað svoleiðis.
2/10/2006 03:22:00 f.h.
þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Er loksins búin að setja nýjar myndir á barnalandssíðuna. Endilega dáist að mínu krúttulega barni. Nú fæ ég ekki lengur borgað fyrir að vera heima og dást að því þannig að ég er komin í vinnu aftur eftir árshlé. Ég byrja á morgun. Finnst það svolítið hræðilegt. Ég fer rólega í sakirnar og vinn bara þrjú kvöld í viku enda ekki með dagmömmu. Það er ekki í smjörlíkisgerð. Ég mun vinna við markaðsrannsóknir. Virðulegt og smart. En ég get ekki blekkt ykkur. Þetta er fansí orð yfir að hraðspóla að auglýsingum og skrá niður hvenær þær hefjast, hvenær þeim lýkur og hver auglýsir. Veit ekki hver tilgangurinn er og er alveg sama. Það er nógu erfitt að byrja að vinna aftur að maður þurfi nú ekki að hugsa líka. Nenni ekki að fara að hugsa strax.

Hvað er búið að gerast....Svaný systir átti afmæli já. Mætti í kökuboðið en treysti mér ekki í partýið svona gömul og lúin. Við héldum líka afmælishryllingsmyndakvöld (hún þarf margra daga veislur eins og aðallinn). Horfðum á gömlu Amityville og Little Britain á eftir svo við yrðum ekki hrædd and then the pies de resistance, lítill gullmoli sem Svaný fékk að gjöf frá unnusta sínum: The Man with the Screaming Brain. Of undarleg til að vera léleg. Of undarleg til að vera góð. Veit ekki hvað skal segja. Mæli ekki með henni við neinn nema sá hinn sami kunni að meta költhetjuna Bruce Campbell sem semur, leikstýrir og leikur í þessu rusli.

Hannes er svo að fara í strákahelgarferð um helgina og ég er að drepast úr öfundsýki. Til þess að vinna á móti henni er ég að pæla í að halda stelpu kokkteilboð. Görrls, sendið mér póst eða komment ef þið viljið fá boðskort og vera memm.
2/07/2006 04:18:00 f.h.
miðvikudagur, febrúar 01, 2006
 TIL HAMÓ MEÐ AMMÓ SVANÝ SYSTIR. NÚ MÁTT ÞÚ LOKSINS DREKKA Í BANDARÍKJUNUM.
2/01/2006 02:52:00 e.h.
|
|
|
|
|