fimmtudagur, desember 29, 2005
 Tölvan tengd og allt í lukkunnar velstandi. Eftir nokkrar vökunætur tókst okkur að gera nýja húsið ljómandi fínt og jólalegt fyrir jólin og höfðum það bara mjög gott. Baldur Rökkvi er enn að jafna sig en öll sætindin og jólaboðin gerðu hann alveg kolkreisí. Hann fékk fjall af fötum og fallegt dót. Við fengum m.a. taðreyktan silung, chili sultu og myglaða kæfu, fótanuddtæki, plötuspilara og pizzustein, Little Britain seríuna og bækurnar Secret Dreamworld of a Shopaholic, Bjargið okkur og Þankagang Jóns Gnarr. Maturinn heppnaðist vel þótt enginn hefði sagt mér að það ætti að taka plast af Hamborgarhryggnum fyrir steikingu. Ég smurði þessum fína gljáa á plastið (sem ég hélt að væri ósköp eðlileg svínshúð) og hið sanna uppgötvaðist ekki fyrr en Hannes dró út úr sér ólseiga ræmu sem hann var lengi búinn að reyna að japla á. Ég er ekki frá því að hryggurinn hafi orðið betri fyrir vikið þar sem safinn hlýtur að hafa haldist betur í honum hunangsplastpökkuðum.
Jæja, best að fara í háttinn, vildi bara rétt stimpla mig inn fyrir áramót. Haldið endilega áfram að eiga gleðilega hátíð.
12/29/2005 02:44:00 f.h.
laugardagur, desember 17, 2005
 EKKERT BLOGG...JAFN VEL EKKERT BLOGG FYRIR JÓL!!! Já ég veit það verður erfitt en þið reynið að þrauka. Reddí or not þá flytjum við í dag. Aðra daga verðum við að reyna að búa um okkur og búa til jól. Ég keypti kampavínsfötu í Góða hirðinum, kampavínið er komið á klaka og ég er búin að finna skvísuna með vígða vatninu frá því BR var skírður. Bless kæra Þórsgata og Kárastígur here we come.
....ps: mig langar líka í húllahring i jólagjöf
12/17/2005 02:53:00 e.h.
þriðjudagur, desember 13, 2005
...og handklæði og sængurföt
12/13/2005 03:46:00 f.h.
sunnudagur, desember 11, 2005
 Vorum aðeins of bjartsýn og náðum ekki alveg að flytja. Hannes og iðnaðarmennirnir eru hættir í dag og eru á svaka fylleríi þar núna áður en þeir fara heim til Póllands í jólafrí. Hannes fer samt ekki til Póllands og ætlar að flytja inn með mér næstu helgi. Við þurfum þó á hjálp að halda svo ef menn eru innblásnir jólaanda og vilja vinna góðverk mega þeir endilega kíkja við hjá okkur og bera eins og einn gítar eða sófasett. Eða bara passa drenginn. Ég er nefninlega eins og blóm í eggi og er meira að eiga við kúkableyjur og grautarslettur en þrif og þungalyftingar.
Talandi um drenginn. Það virðast vera yfir okkur þau álög að heimasíminn hringir í hvert sinn sem drengurinn leggur sig sem leiðir undantekningarlaust til ótímabærrar vakningar. Ég ætla því bara að taka hann úr sambandi og bendi vinum og vandamönnum á að hringja í gemsann. Það heyrist lægra í honum og svo set ég hann bara á silent ef hann...við erum að leggja okkur. Seinna ætla ég að leita á netinu að síma sem heyrist eitthvað sætt í...svona dúbbdúbbdúrúrúrúrúbbúbbúbb eða mjálm eða eitthvað því ég hef sjálf alltaf hrokkið í kút við heimilisímahringingar...og bílflautur. Núverandi bílflautuhljóð valda ergelsi og hræðslu og örugglega mörgum slysum. Það ætti hiklaust að banna þau eða a.m.k. bjóða upp á nokkra valmöguleika: frekjulegt flaut, vinalegt flaut, lagstúfsflaut o.s.frv. Jæja, farin að pakka. Frönskukassar frá McDonalds eru kick ass flutningskassar.
12/11/2005 12:58:00 f.h.
viðbætur við óskalista:
rennda lopapeysu og moppu með sápuvatn í skaftinu.
12/11/2005 12:57:00 f.h.
föstudagur, desember 09, 2005
 Óskalistinn jóla
...í engri sérstakri röð:
Jólaskraut úr Þorsteini Bergmann og jólabúðunum ljósaseríur Stóran pott (til að sjóða mat ekki baða sig í) Baðdót Snyrtidót Skart og skran Föt Nærföt (they have deflated og ég er komin aftur í 75 a eða kannski litlar b) Föndurvörur (skrappdót) Hagnýtar bækur (orðabækur, uppskriftarbækur, sjálfshjálparbækur o.þ.h.) Tónlist spil Faðmlög matarboð nudd góðgæti og allt sem glitrar
Ég veit ekkert hvað eiginmanni mínum langar í enda er hann svo bissí að ég hef ekki náð að tala við hann í c.a ár. Af því að horfa á hann sýnist mér hann vanta:
föt rakakrem í lítravís táfýluvörur og fótanuddtæki tónlist nudd og hárvörur fyrir krullhærða
Þetta eru fyrstu jól Baldurs Rökkva svo hann langar örugglega í allt.
Mig dauðlangaði að segja honum vantar og honum langar hér að ofan. Er það þágufallssýki?
12/09/2005 04:23:00 f.h.
miðvikudagur, desember 07, 2005
 Úbbídúbbí hvað ég var fín á því um helgina. Setti carmen rúllur í hárið, skellti mér í pelsinn, vafði utan um mig minkatreflinum og fór út að borða á Austur Indía með æskuvinkonum. Á eftir drukkum við kokkteila og gæddum okkur á djúpsteiktum Camenbert á Enricos. Klassinn lækkaði aðeins þegar við kíktum á Sálarball á Nasa (hef aldrei gerst svo fræg að fara á slíkt áður) og horfðum á slagsmál á Ellefunni en ég var dama til loka og gerði enga skandala. Það var náttúrulega svoldið skandoluss að veifa svona Visa kortinu vitandi það að ég náði varla að borga reikninginn þennan mánuðinn en what the hey, lykilorðið er VARLA, ég er enn seif. En nú er gamanið búið og ég stend í því að pakka niður alla daga og nætur. Takmarkið er að flytja næsta laugardagskvöld og ef einhver þarf að þjálfa upphandleggsvöðvana má sá hinn sami setja sig í samband við okkur. Bjór í verðlaun.
12/07/2005 04:05:00 f.h.
fimmtudagur, desember 01, 2005
Ég var í ljósum í dag og sofnaði með opinn muninn. Nú er mér illt í tungunni svona eins og ég hafi verið að drekka of heitt kaffi.
En anyway...það eru komnar nýjar myndir á síðuna hans BR
12/01/2005 11:38:00 e.h.
|
|