laugardagur, apríl 30, 2005
Það er allt með kyrrum kjörum....(nema hvað að síminn stoppar ekki. Lífið væri aðeins auðveldara ef fleiri læsu bloggið)
4/30/2005 12:01:00 e.h.
föstudagur, apríl 29, 2005
 Ætli svona kasóléttar jussur eins og ég megi leggja í stæði fyrir fatlaða? Þær ættu alla vega að mega það. Ég mana einhvern til þess að rífa kjaft við mig þegar ég kem veltandi út úr bifreiðinni. En ég hef samt ekki þorað því enn þá. Ég lagði frekar líf og limi í hættu við að finna stæði við Landspítalann en bílastæðamál þar eru greinilega í gífurlegum ólestri. Það mætti sko alveg fara að skella bílastæðakjallara undir draslið. Ég átti þangað erindi til þess að láta mæla blóðþrýstinginn sem er víst himinhár. Þar var líka potað eitthvað í mig og nú eru víst 40% líkur á því að eitthvað gerist innan sólarhrings. Vill einhver veðja?
4/29/2005 01:00:00 e.h.
fimmtudagur, apríl 28, 2005
Sumargjöf my ass! Það er verið að senda fólki samviskubit í pósti. Ég er sem sagt búin að fá Litlu lirfuna ljótu og ætla ekki að borga gíróseðilinn. 2000 kall fyrir 30 mín. mynd og góðgerðarsamtökin fá ekki nema lítinn hluta. Það er merkt við mig í símaskránni svo sölumenn og góðgerðarsamtök láti mig í friði en það hefur ekki stöðvað menn þótt ágangurinn hafi minnkað töluvert. Til þess að öðlast sálarró hef ég valið mér eitt góðgerðarfélag til þess að styrkja og er viss upphæð tekin af Visa í hverjum mánuði til þess. Mér fannst þetta snilldarráð til þess að fá ekki samviskubit þegar önnur félög betla af manni. Það er ekki eins og maður geti dælt pening í þau öll en svo er bara herjað á mann með svona lúalegum markaðsbrellum. Það er of mikið bögg að endursenda hana, ég kann ekki við að henda henni í ruslið og ég hef varla samvisku til að eiga hana fyrst ég ætla ekki að borga. Ég horfði samt á myndina í dag með ólgandi óléttuhormóna. Ég táraðist þegar lirfan sagðist vera svo ljót og feit að engum þætti vænt um hana og fékk gæsahúð þegar vonda kóngulóin kom. Það fór samt ógurlega í taugarnar á mér að allir litu út eins og Siggi Hall, sérstaklega ánamaðkurinn. Og af hverju heitir myndin Kata: Litla lirfan ljóta? Það kom hvergi fram í myndinni hvað hún héti. Orð ánamaðksins glymja í huga mér: "Það sem skiptir mestu máli er að vera góður (...en þú ert það greinilega ekki fyrst þú ætlar ekki að borga gíróseðilinn)".
4/28/2005 12:06:00 f.h.
miðvikudagur, apríl 27, 2005
 Jess, æ lovv itt! Skítt með próflestur og barnsburðarbið. Það þarf sko engum að leiðast með grannalinkinn og barnalandsspjallið við höndina. Verst að mér finnst svo óþægilegt að sitja í tölvustólnum. Þyrfti helst að fá mér DV áskrift líka svo ég geti gjörsamlega velt mér upp úr skítnum. Er búin að sitja hér skríkjandi af kæti yfir umræðum eins og þessari hérna. Ég hefði greinilega getað sleppt því að fara á Trailer Town og farið í heimsókn í Yrsufellið í staðinn. Ætlar ekki einhver að fara að gera heimildarmynd?
4/27/2005 03:28:00 e.h.
þriðjudagur, apríl 26, 2005
Það tekur því ekki einu sinni að blogga um þetta. Að eyða á hana orðum. Hún verður hvort eð er ekki sýnd aftur...En ó mææ gaaaaad. Ég fór í bíó áðan á verstu bíómynd sem ég hef augum litið: Trailer Town. Það eina góða við að hafa séð hana er að nú hef ég alltaf svar á reiðum höndum ef ég verð spurð að því hver versta mynd sem ég hafi séð sé. En ég er ekki að tala um atriðið með gaurnum sem fer á stefnumót með sínum eigin kúk í upphafi myndarinnar. Það var frekar hugljúft. Hún var öll niður á við eftir það.
4/26/2005 01:55:00 f.h.
mánudagur, apríl 25, 2005
 Iss piss, barnið má vera þarna inni eins lengi og það vill fyrir mér því ég er búin að finna link á alla Nágrannaþættina ár fram í tímann.
4/25/2005 06:03:00 e.h.
sunnudagur, apríl 24, 2005
 Þetta er nú bara kjánalegt. Barnið er að komast vel yfir síðasta söludag. Hannes er búinn að vera ofsalega duglegur að fara með mig í gönguferðir eins og hund en það er nú ekki amalegt í svona yndislegu veðri. Í gær fórum við meira að segja á opnun myndlistarsýningar og út að borða á Rossopomodoro því við vorum svöng, áttum leið þar fram hjá og fannst nafnið fyndið. Það var fínt en maturinn var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hannes fékk sér djúpsteikta pizzu sem var frekar mikið ógeð og lítið annað en deigklumpur en mín var ágæt. Á morgun á ég svo tíma hjá lækni og ljósmóður og kemst þá kannski að því hvað tefur burðinn.
4/24/2005 08:21:00 e.h.
föstudagur, apríl 22, 2005
 Það var svo sem ekki við því að búast að barn óstundvísra foreldra myndi koma á áætluðum tíma í heiminn. Við bíðum enn. Ég er búin að klára kvikmyndahátíðarpassann, dilla mér á útgáfutónleikum Trabant og borða kókosbollur í massavís (húsráð frá Elínu). Nú ætla ég bara að fara að hugsa um eitthvað annað sem er þó hægara sagt en gert þegar maður er með svona flykki framan á sér. Læt vita ef eitthvað gerist.
4/22/2005 03:06:00 e.h.
mánudagur, apríl 18, 2005
Bæði klósettið og tölvan virka vel. Fleira er ekki í fréttum.
4/18/2005 05:33:00 e.h.
sunnudagur, apríl 17, 2005
Við erum búin að vera að reyna að laga klósettið í allan dag og nú erum við að laga tölvuna, eða þ.e.a.s. skipta henni út. Okkur tókst líklega að skemma klósettið og ef eins fer fyrir tölvunni gæti komið blogghlé um hríð.
4/17/2005 01:19:00 f.h.
föstudagur, apríl 15, 2005
 Undanfarið hefur eitthvað verið um að fólk panikki þegar það hefur ekki heyrt í eða frá mér í einhvern tíma og haldi að ég sé farin að eiga. Stundum nenni ég ekki að kíkja á tölvupóstinn því tölvan er uppi á lofti og stundum nenni ég ekki að svara í símann því mig er að dreyma enda hef ég svo sem lítið að segja þessa dagana. En svo þið getið andað rólegar lofa ég því að blogga (eða þá fá einhvern til þess að gera það fyrir mig) um leið og eitthvað fer að gera sig líklegt til að troða sér út um klofið á mér. Það verður sko saga til næsta bæjar.
4/15/2005 12:42:00 f.h.
fimmtudagur, apríl 14, 2005
Það var uppselt á einu sýningu Trailer Town, klósettið okkar er bilað og ég er með allt of háan blóðþrýsting. Fleira er ekki í fréttum.
4/14/2005 12:01:00 f.h.
þriðjudagur, apríl 12, 2005
Tækni & vísindi | AP | 11.4.2005 | 21:21 Vekjaraklukka sem hleypur í felur
Þessi vélknúna vekjaraklukka á hjólum hringir og skýst síðan í felur þannig að eigandinn verður að fara á fætur og finna hana til að slökkva á henni. Gripurinn er uppfinning Gauris Nandas, framhaldsnemanda við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) í Bandaríkjunum. Hann kallar tækið Clocky.
Uhhhh, ókeiiiiii. Sniðugt, en af hverju þarf hún að líta út eins og loðinn kúkur?
4/12/2005 12:31:00 f.h.
mánudagur, apríl 11, 2005
Jæja, nú er maður alveg við það að springa. Ég vona samt að ég nái að klára passann minn á kvikmyndahátíðina áður en eitthvað gerist. Ég er búin að fara á þrjár myndir, allar frá Troma og dirfist ekki að mæla með þeim við nokkurn mann. Fannst samt gaman að uppgötva að það er enn þá hægt að hneyksla mig. Það skrýtna er að óléttuatriði eru búin að vera áberandi í öllum myndunum. Í einu sprakk bumban á gellunni og reyndist hún full af poppkorni sem elskhugi hennar gæddi sér á af bestu lyst. Í öðru réðist tvítóla raðmorðingi á ólétta konu og stal fóstrinu og í enn öðru eignaðist ofurhetjan the Toxic Avenger barn sem reyndist vera móðir hans. Það er ágætis undirbúningur fyrir fæðinguna að horfa á sem mest ógeð. Hannes er greinilega orðinn of þroskaður fyrir þessar myndir svo systir mín hefur komið með mér með glöðu geði og í gær heilsuðum við meira segja upp á eiganda Troma, leikstjórann og framleiðandann Lloyd Kaufman. Hann virtist vera gull af manni og gaf okkur systrunum límmiða og ófæddu barninu eintak af Toxic Avenger Part II:
Þessi ljósmynd er sérstaklega skemmtileg fyrir þær sakir að hún er fyrsta celebrity ljósmyndin sem ég hef náð að láta taka um ævina. Fúlt að maður þurfi að vera svona feitur og þreyttur á henni. Svo er það bara uppáhalds myndin mín: Cannibal the Musical í kvöld kl. 22 í Regnboganum. Henni er reyndar óhætt að mæla með enda mun dannaðri en venjulegar Troma myndir.
1: Hey! You're cutting into his butt! 2: Well what sort of meat do you want? 1: Well not butt!
Góðar stundir
4/11/2005 03:44:00 e.h.
fimmtudagur, apríl 07, 2005
Tittsurnar snerta bumbuna þegar ég sit. Það er ógeðslegt. Mér leiðist.
4/07/2005 12:43:00 f.h.
miðvikudagur, apríl 06, 2005
Noh, ég var að fá ábendingu um annað beljulag og tel mér skylt að koma því á framfæri. Passið bara að ýta á stopp þegar lagið fer að endurtaka sig. Annað gæti valdið heilaskaða.
4/06/2005 01:28:00 f.h.
þriðjudagur, apríl 05, 2005
 Hér er ljómandi fínt beljulag ef ykkur leiðist.
4/05/2005 11:38:00 e.h.
Vá maður. Mættum í Perluna í lettnesku pelsunum okkar og skemmtum okkur konunglega en þetta verður sko ekki gert aftur. Þegar maður borgar svona háa upphæð fyrir mat finnst manni að maður ætti að vera saddur fram eftir viku. Svo er ekki. Maturinn var ekki einu sinni neitt sérstaklega góður. Það setti reyndar strik í reikninginn hversu sjóveik ég var af því að snúast svona í hringi. Borðuðum humarsúpu, hráar dádýraþynnur, önd, lamb og creme brulée og ég sullaði vatni yfir borðið okkar og Hannes því mér brá svo þegar þjóninn fór að tala við okkur.
Talandi um mat þá má ég til með að birta mynd af rice crispies kransakökunni fínu sem ég gerði af miklum hagleik fyrir afmælið hans Hannesar:
 Afmælið var ljómandi fínt og annað er svo sem ekki að frétta. Svo er þetta blogg náttúrulega orðið svo húsmæðralegt að ég þori varla að halda áfram. Ég er á fullu í æfingarkennslu þessa viku og næstu og síðan má barnið mæta á svæðið. Ég tel líklegt að ég muni missa legvatnið á kvikmyndahátíðinni sem fer að hefjast því ég ætla ekki að láta mig vanta á Troma sýningarnar sama hvað á dynur. Talandi um barnið þá er komin all svakaleg (allt að því nektar-) bumbumynd inn á barnalands síðuna, ekki fyrir viðkvæma. Jónsi og Hulda komu í bæinn um daginn og í heimsókn með 7 mánaða fegurðarhlunk sinn sem bræddi okkur gjörsamlega. Það verður erfitt að toppa hann svo nú ligg ég í sætindunum svo minn verði líka svona krúttulega búttaður:
4/05/2005 12:51:00 f.h.
sunnudagur, apríl 03, 2005
 Úbbídúbbi, maður er orðinn algjör slóði að uppfæra bloggið. Eins og sést á hamingjuóskunum sem eru farnar að pota sér hingað og þangað á síðuna þá er sem sagt annað afmæli í dag: Eins árs brúðkaupsafmæli okkar skötuhjúanna. Við erum enn þá blússandi hamingjusöm enda brúðkaupsveislan og ferðin enn í fersku minni, við með köku í ofninum og allt að gerast. Við ætlum því að splæsa á okkur kvöldverði í Perlunni í tilefni dagsins en þangað höfum við aldrei komið nema á bókamarkað. Nú er tækifærið að fara á dýran stað því það sparast þvílíkur peningur á því að þurfa ekki að kaupa handa mér vín.
4/03/2005 06:10:00 e.h.
|
|