mánudagur, september 08, 2003
ÉG VEIT HVER VÍKVERJI ER!!!!!! ÉG VEIT HVER VÍKVERJI ER!!!!!!! Þarna, ég sagði það. Ég hef ekkert þorað að blogga því ég var svo hrædd um að sulla baununum. Nú hef ég tekið mig saman í andlitinu og ákveðið að ljóstra ekki upp leyndarmálinu. Ég get því miður ekki sagt ykkur neitt frá síðastliðinni helgi því þá gætuð þið lagt saman tvo og tvo og áttað ykkur á því hver Víkverji er.... eða eru.... nei nú hef ég sagt of mikið. Best að vinda sér í frásögn af helginni þar á undan en henni átti ég eftir að segja frá og var hún bæði skrýtin og skemmtileg:
Þá fór ég nefninlega í flugvél austur á land því ferðinni var heitið til rassgats Íslands, Eskifjarðar. Fyrirtæki Hannesar og Sæma gerði sér nefninlega lítið fyrir og keypti eitt stykki hótel þar sem þeir hyggjast gera upp og selja dýrum dómum þegar álversæðið rennur á Reyðarfirði. Það vill síðan svo heppilega til að góðvinur okkar og uppgjafabloggarinn hann Jónsi elti ástina fyrir stuttu í áðurnefnt rassgat og býr í næsta húsi við hótelið. Því datt okkur í hug að láta hann og kelluna hans reka hótelið á meðan og innleiða reykvíska stemmningu í skemmtanalíf Eskifjarðar....eða bara innleiða eitthvað skemmtanalíf....mér skilst að aðeins Pizza 67 og Shell skálinn séu með áfengisleyfi á þar. Anywho. Glæsivillan heitir hótel Askja, var keypt á 7 millur og hér eru nokkrar myndir af henni:
Kannski ekkert augnayndi að utan en bara drullufín að innan....þrátt fyrir lyktina. Það þarf bara aðeins að teppahreinsa. Öll húsgögn fylgdu með: gamlir munir og myndir, ljósakrónur, kamína, barborð, bjórdæla, öll almenn heimilis og eldhústæki o.s.frv. Eini gallinn að mínu mati (þótt öllum öðrum sé sama) er að þar er reimt. Vofa hjúkrunarkonu á þarna að ganga ljósum logum enda var hótelið upphaflega byggt sem spítali, varð síðar skóli og loks hótel. Hún á samt að vera góð og heldur sig víst aðallega inni í herberginu sínu (nr. 3) en mér er alveg sama. Ég þorði ekki að vera ein neins staðar í húsinu og Hannes þurfti alltaf að fara með mér á klósettið. Ég sá samt ekkert grunsamlegt né heyrði en ég tek sko engar áhættur í húsi sem er með minnkaða útgáfu af ganginum í the Shining. Því miður er ég ekki með myndir af húsinu að innanverðu en við vorum bara með vídeómyndavél og myndirnar urðu dökkar og lélegar. Við gistum þarna fimm: Ég, Hannes og Sæmi ásamt Kristjáni meðeiganda og konunni hans.
Á Laugardeginum keyrðum við um og heimsóttum m.a. Eyjabakka og Kárahnjúka. Það var ekkert þar. Hér er ég í ekkertinu:
Það má sko sökkva þessu öllu fyrir mér.
Við nutum matar og drykkja á hótelinu um kvöldið ásamt Jónsa og ætluðum bara að hafa það náðugt enda ekkert um að vera og ekkert hægt að fara. Sæmi var ekki á sama máli og vildi leita að helgarstuði. Það var svo sem hið besta mál nema hvað að eina stuðið sem í boði var, var harmonikkuball á Egilsstöðum. En allt er hey í harðindum og Sæmi splæsti í leigubíl til Egilsstaða (40 mín.) Meðalaldurinn á ballinu reyndist vera í kringum 67 og vöktum við því heldur mikla athygli. Danskunnáttu okkar var einnig eitthvað ábótavant því það var sama hvað við reyndum að dansa fallega, við klesstum á alla. Einn sjötugur reyndi meira að segja að efna til slagsmála við Hannes en allt fór þó vel. Við skruppum út af ballinu og kíktum á eina barinn sem opinn var en þar voru bara pöddufullir Ítalar frá Kárahnjúkavirkjun í karaoke. Við hertum því upp hugann, fórum aftur á ballið, fundum upp okkar eigin dansa og skemmtum okkur konunglega. Ég á aldrei eftir að fyrirgefa mér fyrir að hafa ekki tekið vídeóvélina með. Sæmi dansaði við hvert gamalmennið á fætur öðru og var hæstánægður með kvöldið. Hann sá því ekkert eftir peningnum sem fór í það á láta leigubílstjórann bíða fyrir utan ballið í þrjá tíma og keyra okkur svo aftur upp á hótel.
9/08/2003 09:06:00 e.h.
|
|